Enski boltinn

„Eigum skilið að finna til“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arteta og aðstoðarmaður hans Albert Stuivenberg ræða málin í leiknum í dag.
Arteta og aðstoðarmaður hans Albert Stuivenberg ræða málin í leiknum í dag. Vísir/Getty

Mikel Arteta sagði hans menn í Arsenal aldrei hafa náð tökum á leiknum þegar liðið beið lægri hlut gegn West Ham í dag og varð um leið af gullnu tækifæri að minnka forskot Liverpool á toppi deildarinnar.

Arsenal tapaði 1-0 á heimavelli gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Forskot Liverpool á toppi deildarinnar er því áfram átta stig en Liverpool á erfiðan leik fyrir höndum á morgun þegar liðið mætir Manchester City á útivelli.

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal var vitaskuld svekktur eftir leikinn í dag og sagði að hann og hans menn ættu skilið að finna til eftir leikinn.

„Við náðum aldrei tökum á leiknum því við vorum óstöðugir með boltann, við gáfum hann alltof langt frá okkur. Við náðum aldrei nægilega löngum góðum köflum eða ógna eins og við vildum gera. Það varð til þess að leikurinn gat farið hvernig sem er.“

West Ham gerði vel varnarlega í dag, lá til baka og beitti skyndisóknum.

„Við leyfðum þeim að hlaupa eftir að hafa tapað boltanum og þeir eru hættulegt lið. Þeir eru með gæði á réttum augnablikum og þetta varð erfiður leikur.“

Hann sagði lítið um rauða spjaldið sem Myles Lewis-Skelly en hann fékk rautt spjald fyrir að brjóta á Muhammed Kudus eftir að hafa misst boltann sem aftasti maður.

„Þá varð þetta hátt fjall að klífa. Við reyndum að bregðast við en við áttum ekki nægilega góð augnablik.“

Myles Lewis-Skelly fékk rautt spjald í leiknum í dag.Vísir/Getty

„Þegar maður kemst í svæðin þá þarf maður að reyna að opna eitthvað en við gerðum það ekki. Það er mér að kenna líka. Það er mín ábyrgð og ég ætla ekki að henda því öllu á leikmennina. Í dag vorum við ekki nægilega góðir til að teljast betri en andstæðingurinn.“

Tapið gerir það að verkum að Liverpool er með átta stiga forskot á toppi deildarinnar og getur aukið muninn í ellefu stig með sigri á Manchester City á morgun.

„Þetta er sársaukafullt. Við þurfum að finna til í dag, við eigum það skilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×