Innlent

Guð­rún nýtur meiri stuðnings hjá al­menningi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðrún og Áslaug Arna tókust á í Pallborðinu á Vísi í dag.
Guðrún og Áslaug Arna tókust á í Pallborðinu á Vísi í dag. Vísir/Vilhelm

Fleiri landsmenn vilja að Guðrún Hafsteinsdóttir verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir samkvæmt könnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið. Mikill munur er á fylgi þeirra milli aldursflokka.

Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verður kjörinn á landsfundi komandi helgi. Von er á um 2200 gestum á fundinn og komast færri að en vilja eins og sést hefur í baráttu fyrir sæti á fundinum undanfarnar vikur.

Könnun Gallup nær ekki til landsfundarfulltrúa heldur til landsmanna svo taka verður niðurstöðunum með þeim fyrirvara. Þá tóku fjórir af hverjum tíu í könnuninni ekki afstöðu til spurningarinnar.

Alls vilja 48 prósent þeirra sem tóku afstöðu að Guðrún verði formaður en hlutfallið er 42 prósent hjá þeim sem hugnast frekar Áslaug Arna. Áslaug Arna er mun sterkari hjá fólki undir fertugu en dæmið snýst við svo um munar hjá kjósendum yfir fertugu. Þannig vilja 67 prósent kjósenda undir þrítugu Áslaugu Örnu en 78 prósent kjósenda yfir sjötugu Guðrúnu.

Áslaug Arna og Guðrún mættust í Pallborðinu á Vísi í dag.

Guðrún er þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi en Áslaug Arna í Reykjavík. Þrátt fyrir það virðist Guðrún njóta meiri vinsælda meðal Reykvíkinga, 52 prósent á móti 40 prósentum, Guðrún fær 45 prósent í sitt lið annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en Áslaug 40 prósent. Á landsbyggðinni styðja 46 prósent Guðrúnu en 45 prósent Áslaugu Örnu.

Tólf prósent þeirra sem tóku afstöðu hugnast einhver annar en konurnar tvær. Snorri Ásmundsson listamaður hefur greint frá framboði sínu til formanns.

Könnunin var gerð 14. til 23. febrúar og var úrtakið 1750 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×