Lautaro Martínez, fyrirliði Inter, kom sínum mönnum yfir á 38. mínútu með glæsilegu marki. Marcus Thuram, félagi Martínez í framlínu Inter, lagði boltann þá með hælnum á Argentínumanninn sem skoraði með laglegu utanfótarskoti.
Thomas Müller jafnaði fyrir Bayern á 85. mínútu en þremur mínútum síðar skoraði Davide Frattesi sigurmark Inter eftir vel útfærða skyndisókn. Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Inter hefur aðeins tapað einum af ellefu leikjum sínum í Meistaradeildinni á tímabilinu og einungis fengið á sig þrjú mörk.
Inter komst í úrslit Meistaradeildarinnar 2023 en féll úr leik fyrir Atlético Madrid í sextán liða úrslitum á síðasta tímabili.
Seinni leikur Inter og Bayern fer fram á San Siro eftir viku.