Erlent

Dánar­or­sök páfans talin vera heila­blóð­fall

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Frans páfi var 88 ára þegar hann lést á öðrum degi páska.
Frans páfi var 88 ára þegar hann lést á öðrum degi páska. EPA

Frans páfi lést í morgun en ítalskir miðlar greina frá að dánarorsökin hafi verið heilablóðfall. Páfinn var lengi heilsuveill vegna alvarlegra veikinda í lungum.

Ítalski miðill Corriere della Sera segir það staðfest að dánarorsök páfans, sem lést rúmlega hálf átta í morgun að staðartíma, hafi verið heilablóðfall. Búist er við formlegri tilkynningu frá Vatíkaninu í kvöld þar sem greint verður frá dánarorsök hans.

Frans páfi, fæddur sem Jorge Mario Bergoglio, var 88 ára að aldri þegar hann lést og hafði sinnt embætti páfa í alls tólf ár. Fyrr á þessu ári var Frans páfi lagður inn á sjúkrahús þar sem hann dvaldi í 38 daga vegna meðferðar við berkjubólgu. Árið 1958 var hluti úr öðru lunga páfans fjarlægður og hafði hann síðan glímt við reglulegar berkju- og lungabólgur.

Samkvæmt ítalska miðlinum la Prepubilca var dánarorsök páfans ekki tengd lungnavandamálum hans.

Hann hélt síðasta ávarp sitt í gær á páskadag og blessaði margmennið sem saman hafði komið á Péturstorgi til að fagna upprisunni.

Fjöldinn allur af þjóðarleiðtogum hefur minnst páfans í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×