Innlent

Líkams­á­rás á veitinga­stað

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglan stóð í ýmsum verkefnum í gær en þó engum meiriháttar.
Lögreglan stóð í ýmsum verkefnum í gær en þó engum meiriháttar. Vísir

Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás á veitingastað í miðborginni í nótt og er málið nú til rannsóknar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17:00 í gær til klukkan 5:00 í morgun. Sex gistu í fangageymslu lögreglu og alls voru 86 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.

Í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem nær yfir Austurbæ, Miðborg, Vesturbæ og Seltjarnarnes, var maður handtekinn grunaður um sölu fíkniefna og vistaður í fangaklefa á meðan rannsókn fer fram. Þá barst lögreglu tilkynning um mann sem var að brjótast inn í bíla. Sá var gripinn við verknaðinn og vistaður í fangaklefa.

Á svæði lögreglustöðvar 2, sem nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes, var tilkynnt um líkamsárás. Ekki kemur fram í hvaða hverfi hún átti sér stað en málið er til rannsóknar.

Einnig barst tilkynning um umferðarslys þar sem tveir bílar lentu í árekstri. Annar bíllinn var óökufær eftir áreksturinn og urðu einhver slys á fólki. Hins vegar er ekki vitað um alvarleika áverkanna.

Loks var ökumaður stöðvaður milli Kópavogs og Breiðholts grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var sviptur ökuréttindum og reyndist vera með hníf meðferðis. Viðkomandi var látinn laus eftir skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×