Fótbolti

Muslera með mark og Mourinho súr

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fernando Muslera er að vinna titilinn í áttunda sinn með tyrkneska liðinu
Fernando Muslera er að vinna titilinn í áttunda sinn með tyrkneska liðinu Akin Celiktas/Anadolu via Getty Images

Galatasaray tryggði sér tyrkneska titilinn í fótbolta með 3-0 sigri á Kayserispor í næst síðustu umferð deildarinnar í gær. Lærisveinar José Mourinho í Fenerbahce sitja eftir með sárt ennið.

Ljóst var fyrir leik að sigur myndi duga Galatasaray fyrir titlinum enda liðið átta stigum á undan Fenerbahce nú þegar ein umferð er eftir í deildinni. Victor Osimhen og Baris Yilmaz skoruðu eitt mark hvor fyrir Galatasaray áður en liðið fékk víti undir lok leiks.

Hinn 38 ára gamli Úrúgvæi steig á punktinn og skoraði. Hann virtist hálf biðja markvörð andstæðinganna afsökunar eftir að hafa komið boltanum í netið en liðsfélagar hans fögnuðu honum gríðarvel.

Búist er við því að Muslera yfirgefi Galatasaray eftir leiktíðina en hann er að vinna tyrkneska titilinn í áttunda sinn á fjórtándu leiktíðinni með tyrkneska liðinu. Mark Muslera var hans annað fyrir félagið en hann skoraði einnig úr víti á sinni fyrstu leiktíð, vorið 2012.

Úrúgvæinn hefur spilað 550 leiki fyrir Gala og yfirgefur liðið á góðum nótum, sem tvöfaldur meistari, en liðið varð bikarmeistari fyrr í vor.

Fjórða árið í röð þarf Fenerbahce að sætta sig við annað sæti deildarinnar og ekki tókst José Mourinho að enda titilbiðina á hans fyrstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×