Atvinnulíf

Hring­rásin: „Ég er með blæti fyrir gömlu timbri“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Högni Stefán Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Artic Plank, smiður og dúkari, var í mörg ár að gera tilraunir til að endurvinna timbur þannig að það yrði á ný hágæðaefni. Sem tókst og nú er ætlunin að skala starfsemina upp; Fyrst fyrir Ísland og síðan út í heim.
Högni Stefán Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Artic Plank, smiður og dúkari, var í mörg ár að gera tilraunir til að endurvinna timbur þannig að það yrði á ný hágæðaefni. Sem tókst og nú er ætlunin að skala starfsemina upp; Fyrst fyrir Ísland og síðan út í heim. Vísir/Anton Brink

Við skulum byrja á því að sjá fyrir okkur eftirfarandi staðreynd:

Á hverju ári henda Íslendingar um 90 þúsund rúmmálum af timbri.

„Þetta jafngildir því að timbri yrði raðað þétt saman á einn fótboltavöll þar sem hver bunki væri 16 metrar upp í loft, sem jafngildir sjö hæða blokk,“ segir Högni Stefán Þorgeirsson, smiður og dúkari og eigandi Arctic Plant.

Högni endurvinnur timburúrgang og umbreytir honum í hágæða timbureiningar fyrir byggingariðnaðinn. Auðvitað tók það sinn tíma að finna réttu formúluna að því að þetta gengi upp en mögulega hefur áhugi Högna á gömlu timbri þar bjargað mörgu.

„Ég er með blæti fyrir gömlu timbri,“ segir Högni og hlær.

Hringiða+ er viðskiptahraðall KLAK fyrir grænar lausnir. Í dag og á morgun segir Atvinnulífið frá fyrirtækjum sem voru meðal þeirra sem tóku þátt í hraðlinum í vor.

Á Instagram síðu Arctic Plank má sjá fullt af myndum af alls kyns hönnun og hlutum sem Högni hefur gert úr gömlu timbri. Magnið sem er hent árlega er gífurlegt en úrgangstimbur er sent til útlanda þar sem það er brennt. Um umhverfisáhrifin þarf því vart að spyrja.

Sagan af gólfefninu frá 1886

Högni er þaulreyndur í faginu. Hefur rekið sitt eigið fyrirtæki hér lengi en bjó líka í Danmörku um fimm ára skeið þar sem hann kom að ýmsum verkefnum.

Högni segir Dani nokkuð duglega að nýta hlutina, þar á meðal alls kyns notað efni fyrir heimili og hús; Allt frá hurðahúnum, gluggum, dyrakömrum og svo framvegis.

Eitt sinn var Högni þó að vinna í verkefni þar sem það átti að farga miklu magni af gólfefni.

„Það var verið að endurgera fimm stigaganga í blokk í Kaupmannahöfn sem þýddi að þar var verið að rífa upp gömul gólfefni og setja ný,“ segir Högni og nánast sýpur hveljur.

Því gamla gólfefnið var frá árinu 1886.

„Ég hugsaði strax með mér; Nei við hljótum nú að geta gert eitthvað úr þessu.“

Og viti menn; Það tókst því áður en Högni flutti aftur til Íslands um aldamótin, var hann búinn að selja megnið af gamla gólfefninu.

Ég flutti samt 400 fermetra af þeim heim, keypti hæð í Bankastræti 6 og notaði hluta af gólfefninu þar. 

Þegar við konan keyptum síðan fyrstu íbúðina okkar í Hlíðunum, notað ég hluta af gólfefninu þar. 

Restin af því er í gamla húsi Tösku- og hanskabúðarinnar, því þegar Geysir opnaði verslunina sína þar, nýttum við gamla gólfefnið fyrir búðina þar.“

Það er ekki aðeins sjarmerandi að heyra af því hvernig gamalt gólfefni frá Kaupmannahöfn hefur dreift sér um alla Reykjavík. Heldur má ekki gleyma því að allt snýst þetta líka um að minnka sóun, lækka kolefnisspor og ná sjálfbærari byggingarlausnum.

Á síðustu 15 árum eða svo, hefur Högni því nýtt gamalt timbur fyrir ýmiss verkefni.

„Til dæmis notaði ég gamalt timbur í KEX Hostel þegar það var opnað,“ nefnir Högni sem dæmi því það verkefni kom ákveðnum bolta af stað; Fólk fór að heyra af Högna og gamla timbrinu í Arctic Plant.

„En ég smíða líka húsgögn og fleira úr gömlu timbri.“

Þegar Högni bjó í Danmörku var hann í verki þar sem það átti að henda gólfefni frá 1886 af fimm stigagöngum. Högni hélt nú aldeilis ekki; Seldi megnið úti en flutti 400 fermetra til Íslands þar sem gamla gólfefnið er núna nýtt á nokkrum stöðum í Reykjavík.

Þegar hugmyndin kviknaði

Hugmyndin er að skala starfsemina upp þannig að Arctic Plant geti endurunnið hágæðatimbur úr úrgangstimbri í eins miklu magni og hægt er.

Til þess þarf að fjárfesta í vélum og tækjum og er Högni í þeim fasa nú að fara að kanna áhuga fjárfesta.

Eins og gengur og gerist hjá frumkvöðlum, tók nokkurn tíma og margar tilraunir til að ná þessu rétt. Lykilatriðið var þó rétt límblanda sem Högni fékk hjá norskum aðila.

„Danir hafa líka mikinn áhuga á þessu,“ segir hann svo allt í einu, rétt ófarinn sjálfur á umhverfis- og hringrásarráðstefnu í Danaveldi í júní.

En hvenær fékkstu þá hugmynd að fara í þetta fyrir alvöru?

„Ég á þrjá fiskibáta og var eitt sinn að fara að huga að þeim þegar ég sá nokkur hundruð tonn af bryggjutimbri eins og stórt fjall hjá Furu út í hrauni í Hafnarfirði. Og sá einfaldlega ofsjónum yfir þessu,“ segir Högni og bætir við:

Þannig að ég hugsaði með mér: 

Er þetta virkilega það eina sem okkur dettur í hug að gera við allt þetta timbur.“

Því já; Það sem gerist við úrgangstimbur er að það er flutt til útlanda þar sem það er brennt.

„Í framhaldinu fór ég að gera tilraunirnar á verkstæðinu hjá mér.“

Gamalt timbur hefur hann síðan nýtt til innréttina á veitingastöðum, hótelum, að smíða húsgögn og fleira.

En hvaðan kemur allt þetta timbur?

„Mest frá vöru- og flutningsiðnaðinum því þetta er mikið magn af vörubrettum og kössum,“ svarar Högni.

Þannig að þetta eru þá ekki byggingaraðilarnir sem eru að skilja eftir mikinn úrgang?

„Nei, vissulega er mikið magn sem verður eftir á byggingarsvæðum. En við erum engir sérstakir umhverfisóðar í þessum efnum né verri en aðrir,“ svarar Högni.

Sem sjálfur sækir sér timbur á Sorpu, hjá Gámafélaginu og Terra.

„Ég bjó til dæmis til allar hillur og fataslár fyrir nýju verslun Góða hirðisins úr gömlu timbri.“

Högni sækir gamalt timbur til Sorpu, Gámafélagsins, Terra og víðar. Hann segir mesta magnið vera frá vöru- og flutningsiðnaðinum en árlega jafnast úrgangs timbur við stóran fótboltavöll þar sem timbrinu væri raðað þétt saman, þar sem hver bunki væri 16 metrar á hæð; Það jafngildir sjö hæða blokk.Vísir/Anton Brink

Högni segir þó nokkra handavinnu fylgja endurvinnslunni enn sem komið er. Það muni þó breytast með tilkomu véla og tækja.

Sérðu fyrir þér að fara með þetta út?

„Já, ég sé fyrir mér að fara með starfsemina til útlanda. En að byrja á því að einbeita mér að Íslandi. Enda er áhugi fólks og fyrirtækja á endurunnu timbri alltaf að aukast. Ekki síst hjá einstaklingum,“ svarar Högni.

Aðspurður um Hringiðu+ hraðalinn segir Högni hann hafa nýst sér frábærlega.

„Mér var bent á að þetta væri gott skref fyrir mig að taka. Sem það svo sannarlega var því ég lærði ótrúlega margt og þetta prógram er vægast sagt mjög flott í alla staði,“ segir Högni og bætir við;

„Fram að því hafði ég bara verið í mínum þægindaramma á mínu verkstæði. En með því að taka þátt í hraðlinum fór maður að hugsa öðruvísi um alla framkvæmdina á þessu og á mun skilvirkari hátt.“

Að mati Högna stendur það líka upp úr hversu gefandi samtölin eru við aðra frumkvöðla.

„Við vorum öll úr sitthvorri áttinni með gjörólík verkefni að fást við. En maður fékk svo mikla endurgjöf, jafnvel úr ólíklegustu áttum. Og vonandi tókst manni að gefa líka eitthvað til baka.“

Myndir þú ráðleggja öðrum sprotum að sækja um svona hraðal?

„Já þetta var ómetanleg reynsla og okkur vantar að miklu fleira fólk fari þessa leið,“ svarar Högni; Sannfærður um að þannig takist enn fleiri nýsköpunarhugmyndum að komast almennilega á legg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×