Erlent

Stjórn­laus gróðureldur ógnar heimilum á Krít

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eldarnir brenna í grennd við hafnarbæinn Iierapetra á suðurströnd Krítar.  
Eldarnir brenna í grennd við hafnarbæinn Iierapetra á suðurströnd Krítar.   InTime News via AP

Tæplega tvöþúsund íbúum á grísku eyjunni Krít hefur verið gert að yfirgefa heimili sín en þar brenna nú gróðureldar stjórnlaust á stóru svæði.

Töluverður vindur er á eyjunni sem gerir málið enn erfiðara fyrir slökkvliðsmenn en eldarnir kviknuðu síðdegis í gær í skóglendi í grennd við bæinn Ierapetra.

Eldurinn hefur magnast fljótt og ógnar nú heimilum, hótelum og einni bensínstöð. Eldurinn brennur nú þegar á um sex kílómetra langri línu og sækir í sig veðrið og honum hefur fylgt mikill reykjarmökkur einnig. Nú er verið að tæma fleiri heimili og hótel í nærliggjandi bæjarfélagi einnig. Fólkinu hefur verið komið á önnur svæði eyjarinnar og um 200 hafast við í íþróttahúsi bæjarins.

Mannskaði hefur ekki orðið en fjórir eldri borgarar voru þó fluttir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun í gærkvöldi að því er segir í umfjöllun BBC. Miklir þurrkar eru nú víða í Evrópu í kjölfar hitabylgjunnar sem þar hefur gengið yfir. Fyrr í vikunni þurftu 50 þúsund manns að yfirgefa heimili sín í Izmir héraði í Tyrklandi.


Tengdar fréttir

Skæð hita­bylgja velgir Evrópu­búum undir uggum

Útlit er fyrir að hitabylgjan sem hefur steikt stóran hluta Evrópu síðustu daga nái til fleiri landa þegar líður á vikuna. Rauðar veðurviðvaranir hafa verið gefnar út sums staðar vegna ofsahitans og gróðureldar loga í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×