Innlent

Sak­felldur en ekki gerð refsing fyrir að bana móður sinni

Árni Sæberg skrifar
Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í morgun.
Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í málinu í morgun. Vísir/Vilhelm

Ymur Art Runólfsson, fertugur karlmaður, hefur verið sakfelldur fyrir að ráða móður sinni bana í íbúð hennar í Breiðholti í Reykjavík í október síðastliðnum. Hann var metinn sakhæfur en þó ekki gerð refsing vegna morðsins. Honum var aftur á móti gert að sæta öryggisvistun.

Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kvað upp dóm yfir Ym fyrir luktum dyrum í morgun. Dómurinn hefur ekki verið birtur og því liggja forsendur hans ekki fyrir að svo stöddu.

Karl Ingi Vilbergsson, sem sótti málið fyrir Héraðssaksóknara, greinir Vísi frá lyktum málsins. Hann segir að ákæruvaldið hafi farið fram á að Ym yrði gert að sæta refsingu en dómurinn hafi ekki talið refsingu myndu bera árangur. Því hefði hann verið sakfelldur og dæmdur til að sæta öryggisvistun. Slíkri öryggisvistun er ekki markaður fyrirframákveðinn tími.

Í ákæru á hendur Ym segir að hann hafi veist að móður sinni, á heimili hennar í Breiðholti, og banað henni með því að stinga hana í það minnsta 22 sinnum með hnífi í brjóstsvæði, handleggi og hendur. Hnífstungurnar hafi meðal annars gengið inn í hægra lunga, sem hafi leitt til dauða hennar.

Dómari ákvað að loka þinghaldi

Aðalmeðferð hófst í málinu þann 5. júní og þá sagði Karl Ingi í samtali við Vísi að þinghald yrði háð fyrir luktum dyrum. 

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála skulu þinghöld háð í heyranda hljóði en dómari getur þó ákveðið, að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola, að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, telji hann það nauðsynlegt.

Tveir dómarar og geðlæknir dæmdu

Karl Ingi sagði einnig að geðmat hefði verið framkvæmt á Ym í málinu og niðurstaða yfirmatsmanna hefði verið að Ymur hefði verið sakhæfur á verknaðarstundu en refsing yfir honum myndi ekki bera árangur. Dómurinn komst að sömu niðurstöðu.

Tveir geðlæknar hefðu framkvæmt matið og dómurinn yrði skipaður tveimur embættisdómurum og einum geðlækni.


Tengdar fréttir

Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“

Kona á sjötugsaldri tjáði sig í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu 1. nóvember 2022 um ofbeldi af hálfu sonar hennar, sem er á fertugsaldri,  sem hafði þá verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brotið. Konan lést í október síðastliðnum en í síðustu viku var greint frá því að sonurinn hefði verið ákærður fyrir að verða henni að bana.

Ymur hafi stungið móður sína minnst 22 sinnum

Ymur Art Runólfsson, sem hét áður Sigtryggur Máni, hefur verið ákærður fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi fyrir að myrða móður sína á heimili hennar í Breiðholti í október síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×