Erlent

Minntust fórnar­lambanna í Híró­síma

Atli Ísleifsson skrifar
Frá athöfninni í Minningargarðinum um frið í Hírósíma í dag.
Frá athöfninni í Minningargarðinum um frið í Hírósíma í dag. EPA

Fjöldi fólks kom saman í hljóðri bæn í japönsku borginni Hírósíma í dag til að minnast fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar sem Bandaríkin vörpuðu á borgina fyrir áttatíu árum.

Shigeru Ishiba, forsætisráðherra Japans, sótti athöfnina ásamt fulltrúa frá fjölda erlendra ríkja að því er segir í frétt BBC.

„Japan er eina þjóðin sem hefur þurft að þola kjarnorkusprengju í stríði,“ sagði Kazumi Matsui, borgarstjóri Hírósíma við athöfnina í Minningargarðinum um frið þar sem hún fór fram. „Japanska ríkisstjórnin er fulltrúi fólks sem sækist eftir sönnum og varanlegum friði.“

Kazumi Matsui, borgarstjóri Hírósíma, kemur fyrir lista af nöfnum fórnarlamba við minnisvarðann. EPA

Bandaríkjamenn vörpuðu tveimur kjarnorkusprengjum á Japan undir lok seinni heimstyrjaldarinnar – í Hírósíma 6. ágúst 1945 og Nagasaki þremur dögum síðar. Japanir gáfust upp í kjölfar sprenginganna sem batt enda á heimstyrjöldina.

Áætlað er að um 200 þúsund manns hafi týnt lífi vegna sprenginganna – sumir í sprengingunni sjálfri og aðrir sökum veikinda af völdum geislavirkni eða brunasára.

Í ræðu sinni vék borgarstjórinn Matsui einnig að aukinni hervæðingu og þeirri nálgun að „kjarnorkusprengjur væru nauðsynlegar fyrir þjóðaröryggi“. „Þessi þróun virðir þann lærdóm sem alþjóðasamfélagið hefði átt að draga af harmleikum sögunnar hneykslanlega að vettugi. Hún ógnar þeim ramma að friði sem svo margir hafa unnið að.“

Frá athöfninni í Hírósíma í dag.ePA

Fórnarlamba kjarnorkusprenginganna verður áfram minnst víða um heim í dag. Þannig fer fram kertafleyting við suðvesturenda Reykjavíkurtjarnar klukkan 22:30 í kvöld. Fyrr um daginn, milli 15 og 17, mun fara fram málþing um kjarnorkuárásirnar í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti, mun halda erindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×