Innlent

Bíll konunnar sást á upp­töku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan var leidd fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu í dag þar sem krafa um gæsluvarðhald var samþykkt.
Konan var leidd fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu í dag þar sem krafa um gæsluvarðhald var samþykkt. Vísir/Vilhelm

Kona á fertugsaldri var úrskurðuð í gæsluvarðhald til þriðjudags í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag grunuð um aðild að hraðbankaþjófnaði í Mosfellsbæ aðfaranótt þriðjudags. Lögregla hafði áður krafist þess fyrir dómi að fá heimild til að skoða síma konunnar. Mynd af bíl konunnar er meðal lykilsönnunargagna í málinu.

Um tuttugu milljónir króna voru í hraðbankanum sem stolið var úr þjónustukjarna í Þverholti í Mosfellsbæ. Þjófarnir notuðu gröfu sem þeir tóku ófrjálsri hendi af framkvæmdasvæði í Blikastaðalandi og ekið var sem leið lá að hraðbankanum. Um er að ræða tveggja til þriggja kílómetra fjarlægð frá þjónustukjarnanum.

Staðsetningarbúnaður í hraðbankanum nýtist ekki við rannsókn málsins en samkvæmt heimildum fréttastofu skemmdist hann við átökin þegar hraðbankinn var því sem næst í heilu lagi hafður á brott.

Karlmaður á fimmtugsaldri er grunaður um aðild að málinu en hann hefur ítrekað komið við sögu lögreglu í öðrum stórum sakamálum undanfarna mánuði. Héraðsdómur hafnaði beiðni lögreglu um gæsluvarðhald í gær og kærði lögregla niðurstöðuna til Landsréttar. Niðurstöðu þaðan er beðið.

Kona á fertugsaldri var handtekin í gær grunuð um aðild að málinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu sést bíll hennar á upptöku úr eftirlitsmyndavél í Mosfellsbæ umrædda nótt nærri því svæði þaðan sem gröfunni var stolið.

Telja má líklegt að það sönnunargagn hafi riðið baggamuninn þegar Arnaldur Hjartarson héraðsdómari féllst á kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir konunni. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki talið að konan leiki lykilhlutverk í hraðbankaþjófnaðinum en geti þó haft upplýsingar sem gagnast rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×