Innlent

Öll spjót beinast að ÍBR vegna skipu­lags­leysis og „rugls í ræsingu“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hlauparar í keppnisflokki voru margir óánægðir með skort á skipulagi og stýringu í upphafi hlaups þegar fjöldi fólks í almennum flokki flæktist fyrir.
Hlauparar í keppnisflokki voru margir óánægðir með skort á skipulagi og stýringu í upphafi hlaups þegar fjöldi fólks í almennum flokki flæktist fyrir. Vísir/Lýður Valberg

Töluverðrar óánægju gætir inn­an hlaupa­sam­fé­lags­ins með fram­kvæmd Reykja­vík­ur­m­araþons Íslands­banka í gær. Skipting í almennan flokk og keppnisflokk tókst ekki betur en svo að fyrri hópurinn teppti fyrir þeim seinni. Íslandsmeistari í maraþoni segir mistök brautarstarfsmanns mögulega hafa kostað sig sigur.

Í Reykjavíkurmaraþoninu í ár voru í fyrsta sinn tvær skrán­ing­ar­leiðir í boði fyr­ir hlaup­ara: almennur flokkur og keppnisflokkur. Ástæðan fyrir þeirri útfærslu eru deilur milli Íþrótta­banda­lags Reykja­vík­ur og Frjálsíþrótta­sam­bands Íslands um vottun hlaupsins sem ná nokkur ár aftur í tímann.

Lengi dróst í fyrra að votta Reykjavíkurmaraþonið sem gilt keppnishlaup vegna deilna milli ÍBR og FRÍ um vottunina. ÍBR taldi sjálfkrafa skráningu í afrekaskrá FRÍ brjóta gegn persónuverndarlögum meðan FRÍ sagði ÍBR ekki vilja greiða 150 króna gjaldið sem sett er á hvern þátttakanda sem kemur í mark.

Af þessum ástæðum var ákveðið að bjóða upp á tvær skráningarleiðir í ár. Annars vegar almennan miða sem veitir þátttakendum rétt til að taka þátt án þess að keppa til verðlauna og sleppa við að úrslitin fari í afrekaskrá FRÍ. Hins vegar keppnismiða sem veitir þátttakendum val um að vera í fremsta ráshólfi, eiga möguleika á að vinna til verðlauna og fá úrslitin skráð í afrekaskrá FRÍ.

Munurinn á miðunum var jafnframt sá að almennur flokkur hófst seinna en keppnisflokkur, þannig hófst keppnisflokkur í maraþoni og hálfmaraþoni klukkan hálf níu en almennur flokkur tíu mínútum síðar. Þessu var eins háttað í tíu kílómetra hlaupinu.

„Klúðrið í startinu í gær var algjört“

Heitar umræður hafa skapast um nýtt fyrirkomulag hlaupsins á Facebook-hópnum „Hlauparar á Íslandi“ sem telur um átta þúsund manns.

„Vonandi verður þessi undarlega skipting ekki endurtekin. Þvílíka ruglið í ræsingu fyrir maraþon og hálfmaraþon,“ sagði Gunnhildur Ásta Traustadóttir, sem hljóp hálfmaraþon í gær með Hlaupa­hópi FH, í hópnum.

Engin stýring hafi verið á því hvar fólk með almennan miða ætti að bíða.

„Fullt af fólki með almennan miða sem stóð framarlega í ráshólfinu og stóð hreinlega fyrir fólki með keppnismiða eftir ræsingu keppnishópsins (sem var langt á eftir áætlun). Tók marga mjög langan tíma að komast yfir ráslínuna,“ sagði hún janframt 

Óskar Jakobsson, sem hljóp maraþon með hlaupahópnum HHHC, tók í svipaðan streng og sagði ræsið í hlaupinu hafa mislukkast.

„RM er í algjöru rugli með svo margt. Klúðrið í startinu í gær var algjört. Þurfti að sviga framhjá fullt af fólki til að komast af stað. Startið átti að vera klukkan 8:30 en ræsingin var ekki fyrr en einhverjum 8 mínútum síðar,“ skrifaði hann í hópnum.

Mögulega afdridarík mistök

Flokkaskiptingin og skipulag hennar er þó ekki eina umkvörtunarefnið, einn fremsti hlaupari landsins, Hlynur Andrésson, kvartaði undan því hvernig staðið væri að hlaupinu í brautinni.

Hlynur lýsti því bæði í viðtölum í gær og á samfélagsmiðlum sínum að honum hefði verið vísað út af brautinni á mikilvægum tímapunkti í hlaupinu. Mögulega hafi það kostað hann sigur.

Hlynur sýndi á Instagram útúrdúrinn sem hann tók í hlaupinu eftir að hafa verið beint í ranga átt þegar hann hafði hlaupið um 30 kílómetra.Skjáskot/hlynurand12

„Eftir 30 km er mér svo beint af brautarverði að beygja upp á Sævarhöfða í staðinn fyrir að halda beint áfram eins og við áttum að gera. Portúgalinn gerði ekki sömu mistök og græddi strax 50 metra bil á mig. Ég reyndi að elta hann niður en hafði eytt of mikilli orku fyrsta helminginn og ég byrjaði þá að lenda í vandræðum,“ skrifar Hlynur.

Baldvin Þór Magnússon varð Íslandsmeistari í tíu kílómetra hlaupi en forsvarsmenn hlaupafataverslunarinnar Hlaupár vöktu athygli á því á samfélagsmiðlum að Baldur hafi þurft að sikk-sakka milli hálfmaraþonhlaupara til að komast leiðar sinnar. Tímasetningin hefði því ekki verið nógu vel úthugsuð.

Skjáskot úr hringrás Hlaupárs á samfélagsmiðlum.

Fréttastofa leitaði viðbragða Sebastians Storgaard, kynningarfulltrúa Reykjavíkurmaraþonsins, sem vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.


Tengdar fréttir

„Horft illum augum á þannig taktík í hlaupa­heiminum“

Íslandsmeistarinn Hlynur Andrésson segir það frekar ósmekklegt hvernig Portúgalinn José Sousa nýtti sér Hlyn sem skjól fyrir vindinum stærstan hluta Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í gær. Sousa hafi þó verðskuldað sigurinn og Hlynur ekki átt sinn besta dag.

Miklar tilfinningar og mikil stemning í Reykjavíkurmaraþoninu

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í fertugasta sinn í dag. Aldrei hafa fleiri hlauparar verið skráðir til leiks né jafn mikill peningur safnast til góðgerðarmála. Viktor Freyr ljósmyndari var á staðnum og myndaði fólk að hlaupa og koma í mark. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×