Innlent

Hæsti­réttur tekur fyrir mál móður sem dæmd var í 18 ára fangelsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atvikið átti sér stað í húsi á Nýbýlavegi.
Atvikið átti sér stað í húsi á Nýbýlavegi. Vísir

Hæstiréttur Íslands hefur samþykkt að taka til meðferðar mál móður sem dæmd var í 18 ára fangelsi fyrir að ráða sex ára syni sínum bana og reyna að svipta ellefu ára son sinn lífi í janúar í fyrra.

Konan var talin sakhæf bæði í héraðsdómi og Landsrétti. Dómkvaddir matsmenn töldu hana þjakaða af alvarlegu þunglyndi en ekki geðveiki. Hún tilkynnti sjálf um andlát sonarins til lögreglu. Eldri sonurinn bar fyrir dómi að móðir hans hefði reynt að kæfa hann og spurt hvort hann vildi ekki deyja áður en hann næði tilteknum aldri „til að fara í góða heiminn“.

Héraðsdómur kvað upp dóm í nóvember í fyrra og Landsréttur staðfesti hann í júní. Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að ranghugmyndir af völdum geðsjúkdóms útilokuðu ekki sakhæfi nema viðkomandi væri með öllu ófær um að stjórna gerðum sínum. Því var konan talin sakhæf og refsing ákveðin fangelsi í 18 ár.

Verjandi konunnar telur hins vegar að dómurinn sé bersýnilega rangur og málsmeðferðin ábótavant. Hann bendir á að ekki hafi verið litið nægilega til ástands konunnar né til refsimildandi þátta sem fram komu í matsgerðum. Þá hafi verjandinn ekki fengið að spyrja matsmenn tiltekna spurninga sem hefðu getað varpað ljósi á orsakir verknaðarins.

Hæstiréttur áréttar að niðurstaða um sönnun og sakfellingu sem byggi á munnlegum framburði verði ekki endurskoðuð fyrir dómnum. Hins vegar telur hann að málið kunni að hafa verulega almenna þýðingu, einkum varðandi hvort málsmeðferð hafi verið ábótavant. Á þeim grundvelli var áfrýjunarbeiðni konunnar samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×