Erlent

Drónar sáust á flugi yfir herflugvelli í Dan­mörku og Noregi

Rafn Ágúst Ragnarsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Þessi ratsjárkrani í grennd við Drageyri er liður í bráðabirgðadrónavörnum víða í Danmörku.
Þessi ratsjárkrani í grennd við Drageyri er liður í bráðabirgðadrónavörnum víða í Danmörku. AP

Drónar sáust aftur svífa yfir dönskum herflugvelli á Jótlandi í gærkvöldi. Danska lögreglan tilkynnti þetta í gærkvöldi eftir að fjölmargar ábendingar bárust frá almenningi.

Drónar hafa sést á flugi við nokkra flugvelli í Danmörku í vikunni, fyrst við Kastrup-flugvöll í upphafi vikunnar og svo við fjölmarga flugvelli á Jótlandi á miðvikudag. Lofthelgi var lokað yfir Álaborg og víðar vegna drónanna en opnuð aftur eftir um klukkustundarlokun.

Samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins bárust fjölmargar ábendingar um drónaflug í gær en margar þeirra reyndust eiga sér aðrar skýringar. Lögregla segir þó einn eða tvo dróna hafa verið á sveimi við Karup-herflugvöllinn og hefur hún haft þar viðveru í morgun.

Í morgun barst danska ríkisútvarpinu svo staðfestingar frá hernum að drónar hefðu sést á flugi yfir mörgum starfsstöðvum hersins víða um landið. Herinn tekur ekki fram hvar varð vart við drónaflug. Samkvæmt yfirlýsingum hersins voru viðbragðsferlar gangsettir án þess þó að taka fram hvers eðlis þeir voru.

Greint er frá því í umfjöllun ríkisútvarpsins danska að meldingar hefðu borist norska hernum um mögulegt drónaflug við flugherstöðina í Ørland en það er stærsta flugherstöð Noregs. Norski herinn hefur ekki staðfest þessar fregnir en staðfestir að þeim hafi borist fjöldi ábendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×