Innlent

Vesturbæjarlaug aftur lokað

Lovísa Arnardóttir skrifar
Málningin sem hefur flagnað af sundlaugarkarinu.
Málningin sem hefur flagnað af sundlaugarkarinu. Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hefur, í samráði við starfsfólk heilbrigðiseftirlitsins, tekið ákvörðun um að loka laugarkari Vesturbæjarlaugar tímabundið á meðan unnið er að lausn á flögnun á málningu.

Í tilkynningu á vef borgarinnar segir að ráðist hafi verið í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir á lauginni í sumar með það að marki að bæta aðstöðu gesta og endurnýja eldri mannvirki. Fljótlega eftir að laugin opnaði aftur hafi farið að bera á að málning flagnaði af botni laugarinnar. Var lauginni þá lokað aftur og ráðist í úrbætur.

Í tilkynningu segir að sú vinna hafi því miður ekki skilað tilætluðum árangri og því sé nauðsynlegt að loka laugarkarinu að nýju. Ekki er vitað hversu lengi þessi lokun mun standa yfir.

Heitir pottar, eimbað og búningsklefar verða áfram opnir á meðan unnið er að lausn.

Fjórða lokunin

Þetta er í fjórða sinn sem lauginni hefur verið lokað vegna framkvæmda undanfarna mánuði. Lauginni var fyrst lokað 26. maí vegna viðhaldsframkvæmda, sem drógust síðan á langinn, en svo opnaði laugin aftur 19. júní. Vesturbæjarlaug var svo aftur lokað 18. ágúst en opnuð aftur viku seinna. 

En svo þurfti aftur að loka lauginni í sólarhring 29. ágúst en laugin hefur verið opin síðan þá. Fjallað var um það í september að málningi væri að flagna en þá átti að bíða með að mála aftur þar til í vor. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×