Fótbolti

Héldu hreinu í öllum tíu leikjunum í undan­keppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yan Valery og Moutaz Neffati fagna eftir að Túnis tryggði sér sæti á HM 2026 með sigri á Namibíu í gær.
Yan Valery og Moutaz Neffati fagna eftir að Túnis tryggði sér sæti á HM 2026 með sigri á Namibíu í gær.

Túnis verður á meðal þátttökuliða á heimsmeistaramótinu næsta sumar. Túnisar tryggðu sér HM-sætið með sérlega glæsilegum hætti.

Túnis var í riðli með Namibíu, Líberíu, Malaví, Miðbaugs-Gíneu og Saó Tóme og Prins­ípe í undankeppninni í Afríku.

HM-sætið var í höfn eftir 3-0 sigur Túnis á Namibíu í gær. Ali Abdi, Hannibal Mejbri og Ferjani Sassi skoruðu mörkin.

Túnisar unnu níu af tíu leikjum sínum í undankeppninni og gerðu eitt jafntefli. Þeir skoruðu 22 mörk en fengu ekkert á sig. Þeir héldu með öðrum orðum hreinu í öllum tíu leikjunum sínum sem er einstakt.

Namibía var eina liðið sem tók stig af Túnis í undankeppninni en liðin gerðu markalaust jafntefli í Jóhannesarborg í Suður-Afríku síðasta sumar. Namibíumenn urðu í 2. sæti riðilsins með fimmtán stig, þrettán stigum á eftir Túnisum.

HM næsta sumar verður þriðja heimsmeistaramótið í röð sem Túnis tekur þátt á. Liðið féll út í riðlakeppninni á HM 2018 og 2022. Túnis tók einnig þátt á HM 1978, 1998, 2002 og 2006 en hefur aldrei komist upp úr riðlakeppninni.

Auk Túnis eru Marokkó, Egyptaland, Alsír, Gana og Grænhöfðaeyjar búin að tryggja sér sæti á HM af Afríkuþjóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×