Fótbolti

Tuchel hafði gaman að skotum enskra stuðnings­manna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel er búinn að koma enska landsliðinu á HM.
Thomas Tuchel er búinn að koma enska landsliðinu á HM. epa/TOMS KALNINS

Thomas Tuchel, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, hafði húmor fyrir skotum stuðningsmanna Englands í hans garð á meðan leiknum gegn Lettlandi í gær stóð.

England varð fyrsta Evrópuþjóðin til að tryggja sér sæti á HM 2026 með 0-5 útisigri á Lettlandi. Englendingar hafa unnið alla sex leiki sína í K-riðli undankeppninnar með markatölunni 18-0.

Eftir 3-0 sigur á Wales í vináttulandsleik á Wembley á fimmtudaginn kvartaði Tuchel yfir því hversu hljótt var á þjóðarleikvanginum.

„Leikvangurinn var alveg hljóður. Við fengum enga orku til baka frá stúkunni. Við gerðum sjálfir allt til að vinna. Ef maður heyrir bara í stuðningsmönnum Wales þá er það frekar sorglegt. Liðið átti skilið að fá mikinn stuðning í kvöld,“ sagði Tuchel eftir leikinn á fimmtudaginn.

Stuðningsmenn Englands sem ferðuðust til Ríga virtust ekki vera búnir að gleyma ummælum Tuchels og skutu á Þjóðverjann á meðan leiknum í gær stóð.

„Þeir létu mig aðeins heyra það í fyrri hálfleik sem var sanngjarnt. Ég hef alveg húmor fyrir því,“ sagði Tuchel eftir leikinn.

„Þeir höfðu ástæðu til vegna ummæla minna. Ég fékk nokkur skot og fannst það bara skemmtilegt. Ég brosti og svona á þetta að vera. Þetta er breskur húmor og ég get tekið honum. Enginn skaði skeður.“

Tuchel hrósaði stuðningnum sem Englendingar fengu í leiknum í gær og kvaðst jafnframt handviss um að enska liðið fengi góðan stuðning á HM næsta sumar.

England hefur unnið sjö af átta leikjum sínum undir stjórn Tuchels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×