Enski boltinn

Móðgaði Ever­ton sem svaraði fyrir sig á sam­félags­miðlum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Pickford hefur ekki fengið á sig mark fyrir enska landsliðið í heilt ár.
Jordan Pickford hefur ekki fengið á sig mark fyrir enska landsliðið í heilt ár. getty/Mateusz Slodkowski

Lee Dixon kom við kauninn á Everton-mönnum þegar hann lýsti leik Lettlands og Englands í undankeppni HM 2026 í gær. Félagið svaraði fyrir sig á samfélagsmiðlum.

Jordan Pickford var á sínum stað í markinu hjá enska liðinu í leiknum í Ríga. Hann hélt hreinu og Englendingar unnu 0-5 sigur og tryggðu sér þar með sæti á HM næsta sumar.

Í lýsingu sinni á leiknum á ITV velti Dixon því fyrir sér af hverju Pickford hefði ekki farið til stærra félags en Everton. Búist er við því að hann skrifi undir nýjan samning við Everton á næstu dögum.

Þessi ummæli Dixons fóru illa í Everton-menn og skömmu eftir að hann lét þau falla birtist færsla á X-síðu félagsins. Þar voru titlar Everton taldir upp en félagið hefur níu sinnum orðið enskur meistari, fimm sinnum bikarmeistari og vann Evrópukeppni bikarhafa 1985. 

Jafnframt var tiltekið að Everton ætti ástríðufulla stuðningsmenn og spilaði á nýjum og glæsilegum leikvangi. „Everton - stórt félag: í fortíð, nútíð og framtíð,“ stóð enn fremur í færslunni.

Pickford setti met í gær en hann hefur nú haldið hreinu í níu leikjum fyrir enska landsliðið í röð. Hann lék sinn áttugasta landsleik gegn Lettlandi í gær.

Hinn 31 árs Pickford hefur leikið með Everton síðan 2017 þegar hann kom til félagsins frá Sunderland. Pickford hefur leikið 322 leiki fyrir Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×