Erlent

21 árs fangelsi fyrir banatilræðið gegn Fico

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hinn 72 ára gamli Juraj Cintula hefur hlotið dóm fyrir banatilræði gegn forsætisráðherranum Robert Fico. Hann hefur sagst hafa skotið Fico þar sem hann sé ósammála pólitískri stefnu forsætisráðherrans.
Hinn 72 ára gamli Juraj Cintula hefur hlotið dóm fyrir banatilræði gegn forsætisráðherranum Robert Fico. Hann hefur sagst hafa skotið Fico þar sem hann sé ósammála pólitískri stefnu forsætisráðherrans. AP/Vaclav Salek

Hinn 72 ára gamli Juraj Cintula hefur verið dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir banatilræðið gegn Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, í maí í fyrra. Dómurinn var kveðinn upp í sérhæfðum glæpadómstól í borginni Banská Bystrica í Slóvakíu í morgun. Cintula er dæmdur fyrir hryðjuverkaárás með því að hafa skotið á forsætisráðherrann þar sem hann var staddur umvafinn stuðningsmönnum sínum að afloknum ríkisstjórnarfundi í bænum Handlová þann 15. maí í fyrra.

Cintula var handtekinn strax á vettvangi verknaðarins og hefur verið í varðhaldi síðan.

Skot Cintula hæfðu forsætisráðherrann sem var fluttur á sjúkrahús þar sem hann undirgekkst fimm klukkustunda langa skurðaðgerð samdægurs, og aðra sem stóð yfir í tvær klukkustundir tveimur dögum síðar. Fico hefur síðan náð bata og gegnir enn embætti forsætisráðherra landsins.

Cintula hefur sagt að stefna ríkisstjórnar Fico, sem hann sé ósammála, hafi hvatt hann til verknaðarins. Hann hins vegar hafnaði því að gefa vitnisburð fyrir dómstólnum en staðfesti að það sem hann hafi sagt við yfirheyrslu við rannsókn málsins haldist óbreytt varðandi ástæður þess að hann hafi látið til skarar skríða. Þrátt fyrir að viðurkenna að pólitískar ástæður lægju að baki árásinni ku Cintula þó hafa hafnað því við yfirheyrslu að vera hryðjuverkamaður að því er fram kemur í umfjöllun AP um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×