Fótbolti

Stelpurnar okkar byrja á erfiðasta glugga sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni með boltann í umspilsleiknum á móti Norður-Írlandi þar sem íslenska liðið tryggði sér áframhaldandi veru í A-deildinni.
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni með boltann í umspilsleiknum á móti Norður-Írlandi þar sem íslenska liðið tryggði sér áframhaldandi veru í A-deildinni. Vísir/Anton Brink

Marsglugginn á nýju ári verður án efa erfiðasti gluggi íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta frá upphafi.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta lenti í algjörum martraðarriðli í undankeppni HM 2027 enda í riðli með bæði heimsmeisturum Spánar og Evrópumeisturum Englands.

Undankeppni fer fram frá mars til júní á næsta ári og Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur nú staðfest leikjaniðurröðun í riðlum A-deildar kvenna í undankeppni HM 2027.

Stelpurnar okkar þurfa að byrja á tveimur erfiðustu leikjunum því Ísland byrjar á tveimur útileikjum í mars, gegn Spáni og Englandi.

Á sama tíma og íslensku stelpurnar heimsækja heimsmeistarana á Spáni þá spilar England útileik á móti Úkraínu áður en þær taka á móti Íslandi fjórum dögum síðar.

Tveir heimaleikir verða í landsliðsglugganum í apríl, gegn Úkraínu og Englandi. Áður en ensku stelpurnar koma til Íslands þá fá þær heimsmeistara Spánar í heimsókn.

Íslensku stelpurnar enda svo á útileik gegn Úkraínu og heimaleik gegn Spáni í júní. Spænska landsliðið spilar heimaleik við England fjórum dögum áður en liðið kemur til Íslands.

  • Leikjaniðurröðun í undankeppni HM 2027:
  • 3. mars
  • Spánn - Ísland
  • 7. mars
  • England - Ísland
  • 14. apríl
  • Ísland - Úkraína
  • 18. apríl
  • Ísland - England
  • 5. júní
  • Úkraína - Ísland
  • 9. júní
  • Ísland - Spánn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×