Fótbolti

Eggert Aron mætir fyrir úr­slita­leikinn í Pól­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson er leikmaður Brann í Noregi og fagnar hér eftir leik gegn Bologna í Evrópudeildinni.
Eggert Aron Guðmundsson er leikmaður Brann í Noregi og fagnar hér eftir leik gegn Bologna í Evrópudeildinni. Getty/Alessandro Sabattini

Eftir að hafa skorað eitt marka U21-landsliðs Íslands í Lúxemborg í kvöld er Eggert Aron Guðmundsson á leið til móts við A-landsliðið, fyrir úrslitaleikinn við Úkraínu á sunnudaginn um sæti í HM-umspilinu.

Leikur Úkraínu og Íslands, heimaleikur Úkraínumanna, fer fram í Varsjá í Póllandi vegna stríðsástandsins.

Hinn 21 árs gamli Eggert Aron verður þar til taks en hann kemur inn í A-landsliðshópinn eftir að ljóst varð að Mikael Anderson gæti ekki spilað í þessum leikjaglugga vegna meiðsla.

Eggert Aron, sem er lærisveinn Freys Alexanderssonar hjá Brann í Noregi, á að baki tvo A-landsleiki en þeir komu báðir í janúarverkefni árið 2024 og er tilefnið því umtalsvert stærra á sunnudaginn. Hann á að baki 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Eftir úrslit kvöldsins, þar sem Ísland vann Aserbaísjan 2-0 og Frakkland vann Úkraínu 4-0, er ljóst að Íslandi dugar jafntefli gegn Úkraínu á sunnudaginn til að ná 2. sæti síns riðils og komast í HM-umspilið.


Tengdar fréttir

Sjáðu mörk ungu strákanna okkar

Íslenska U21-landsliðið í fótbolta karla vann Lúxemborg í annað sinn á mánuði, í undankeppni EM í dag. Mörkin úr leiknum, sem lauk með 3-1 sigri Íslands, má sjá á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×