Fótbolti

Bökuðu botnliðið í miðjum slag við Blika

Sindri Sverrisson skrifar
Fortuna hafði betur í fyrri leiknum gegn Breiðabliki, 1-0, á Kópavogsvelli á miðvikudaginn.
Fortuna hafði betur í fyrri leiknum gegn Breiðabliki, 1-0, á Kópavogsvelli á miðvikudaginn. vísir/Anton

Íslandsmeistarar Breiðabliks eiga níðþungt verkefni fyrir höndum í Danmörku á miðvikudaginn, í seinni leik sínum við Fortuna Hjörring í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í fótbolta.

Fortuna vann fyrri leik liðanna 1-0 í Kópavogi síðastliðinn miðvikudag en eins og Nik Chamberlain, fráfarandi þjálfari Blika, sagði í viðtali við Vísi er enn allt opið í einvíginu og tækifæri gáfust vissulega í fyrri leiknum.

Breiðablik lék sinn síðasta leik í Bestu deildinni fyrir mánuði síðan, eða 18. október, en Fortuna er á miðju tímabili í Danmörku.

Í dag vann Fortuna 5-0 stórsigur gegn botnliði OB á útivelli og leikmenn liðsins ættu því að mæta kokhraustir í leikinn við Blika á miðvikudaginn. Mörkin í dag komu þó öll á síðustu tuttugu mínútum leiksins.

Eftir sigurinn er Fortuna í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 26 stig úr 13 leikjum, fimm stigum á eftir toppliði Köge sem á leik til góða við Nordsjælland í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×