Innlent

Semur um DNA-próf til að koma í veg fyrir ó­lög­legan flutning barna

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra bindur vonir við að samningur um DNA-sýnatöku verði undirritaður á næstu vikum.
Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra bindur vonir við að samningur um DNA-sýnatöku verði undirritaður á næstu vikum. Vísir/Ívar Fannar

Dómsmálaráðuneytið er í samningaviðræðum við erlenda alþjóðastofnun um framkvæmd DNA-sýnatakna fyrir íslensk stjórnvöld. Dómsmálaráðherra segir það séríslenskt að ekki hafi verið farið fram á slíkar sýnatökur þegar veitt eru dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra skrifaði grein á Vísi í kjölfar umfjöllunar mbl þar sem greint er frá að á annan tug barna hafi komið til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar en hafi síðan engin blóðtengsl verið á milli barnanna og fjölskyldunnar. 

„Þetta hefur m.a. leitt til þess að á annan tug barna, sem vitað er um, hefur komið hingað til lands og niðurstöður DNA-rannsóknar hafa síðar staðfest að ekki eru fjölskyldutengsl við þá sem þau eru að sameinast,“ segir Þorbjörg.

Hún telur að reglurnar opni leið fyrir smyglara til að flytja börn ólöglega á milli landa og oft hafi leikið grunur á mansal, þó að ekki sé hægt að fullyrða það.

„Þetta á auðvitað við um stærri hópa en börn. Skipulagðir brotahópar vita hvaða lönd eru með veikt kerfi. Íslensk stjórnvöld ætla ekki lengur að vera veikur hlekkur í keðjunni. Ekki á vakt þessarar ríkisstjórnar.“

Börnin fara því í umsjá barnaverndarþjónustu þar til þau verða sjálfráða. Í grein Þorbjargar, sem ber heitið Stöðvum ólöglegan flutning barna, greinir hún frá tilætlunum sínum um fimm frumvörp um útlendingamál á þessu þingári sem er ætlað að breyta séríslensku reglunum.

Meðal þess er að gera samning við viðurkennda alþjóðastofnun um að framkvæma DNA-sýnatökur fyrir íslensk stjórnvöld erlendis. 

„Með þessu munum við tryggja að fólk sem kemur hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar tengist í raun fjölskylduböndum og sé í raun og veru blóðskylt,“ segir ráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×