Enski boltinn

Fyrr­verandi enskur lands­liðs­maður hand­tekinn grunaður um nauðgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmaðurinn spilaði fyrir enska landsliðið en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Leikmaðurinn spilaði fyrir enska landsliðið en myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Harriet Lander

Enskir fjölmiðlar segja í dag frá handtöku þekkts einstaklings innan enska boltans en nafn hans kemur þó hvergi fram í fréttum þeirra.

Fyrrverandi enskur landsliðsmaður í knattspyrnu var handtekinn á Stansted-flugvelli á sunnudag, grunaður um tilraun til nauðgunar á fyrrverandi maka.

Breska ríkisútvarpið segir frá þessu og vitnar í staðfestingu á handtöku hjá lögreglunni í Essex.  The Athletic fjallar einnig um málið.

ESPN hefur fengið staðfest hver einstaklingurinn er en segist ekki geta nafngreint hann af lagalegum ástæðum.

Lögreglan í Essex staðfesti við ESPN að maðurinn hafi verið látinn laus gegn tryggingu til „loka febrúar 2026“ á meðan frekari rannsókn fer fram.

Talsmaður lögreglunnar sagði í yfirlýsingu: „Maður hefur verið handtekinn grunaður um tilraun til nauðgunar og hefur verið látinn laus gegn tryggingu til loka febrúar 2026 á meðan við höldum rannsókn okkar áfram.“

Maðurinn var stöðvaður við vegabréfaeftirlit á Stansted, eins og The Sun greindi fyrst frá. Talið er að fyrrverandi maki hans hafi lagt fram kæruna fyrir nokkrum vikum.

Sagt er að leikmaðurinn hafi verið stöðvaður við vegabréfaeftirlit af landamæravörðum áður en hann gat farið um borð í flugvél á sunnudag. Við athugun á persónuupplýsingum hans kom í ljós að hann var eftirlýstur af lögreglu vegna eldri ásakanar um tilraun til nauðgunar.

Í Bretlandi er nafn handtekins einstaklings sjaldan gefið upp eða staðfest af lögreglu. Þessi nálgun var tekin upp í kjölfar Leveson-rannsóknarinnar á breskum fjölmiðlum árið 2012 þar sem kom fram að ekki ætti að nafngreina grunaða einstaklinga sem eru handteknir „nema við óvenjulegar og skýrt afmarkaðar aðstæður“. Yfirleitt er nafn gefið upp ef hinn grunaði er ákærður.

Leikmaðurinn á að hafa spilað fyrir enska landsliðið á öðrum áratug þessarar aldar eða frá 2010 til 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×