Fótbolti

Fannar sagði sann­leikann um „hrákufimmuna“ sem vakti heims­at­hygli

Sindri Sverrisson skrifar
Fannar Sveinsson og Luka Modric hafa slegið saman lófum, á einu allra sárasta augnabliki í sögu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.
Fannar Sveinsson og Luka Modric hafa slegið saman lófum, á einu allra sárasta augnabliki í sögu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

Kvöldstund á skemmtistað með Mario Balotelli, „hrákafimman“ sem Luka Modric fékk frá Fannari og rjúpnaskytterí var á meðal þess sem rætt var um þegar Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson mættu í VARsjána á Sýn Sport í vikunni.

Hraðfréttabræðurnir Fannar og Benni, sem í kvöld klukkan 19 stýra skemmtiþættinum Gott kvöld á Sýn, ásamt Sveppa, voru fengnir til að fara yfir sína uppáhalds fótboltamennn í VARsjánni. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: VARsjáin - Uppáhaldsleikmenn Benna og Fannars

Benedikt benti á að Fannar hefði nú á sínum tíma slegið í spaðann á einum frægasta knattspyrnumanni heims, Króatanum Luka Modric, en það var eftir að Króatía vann umspilið við Ísland um sæti á HM 2014 í Brasilíu.

Myndband af því þegar Fannar virtist hrækja í lófa sinn og gefa Modric svo fimmu fór á flug á internetinu.

„Þetta varð eiginlega „viral“ á Youtube. Ég kann ekki króatísku en þetta fór víða og í Króatíu, og var með yfir milljón spilanir. En sannleikurinn er sá að ég gerði þetta [gaf Modric fimmu] og síðan eftir á hrækti ég. Þetta var sviðsett,“ viðurkenndi Fannar léttur.

Myndbandið af þeim Fannari og Modric má í dag meðal annars finna á TikTok og miðað við ummæli við myndbandið hefur hátterni Fannars vakið ansi mikla reiði.

Fannar rifjaði einnig upp þegar hann hitti Mario Balotelli á skemmtistað en er ekki mikill fótboltaáhugamaður og sagði systur sína frekar hafa verið spennta að hitta slíka stórstjörnu eins og Ítalinn var á sínum tíma.

Fannar valdi sinn uppáhalds leikmann í enska boltanum og Benedikt valdi svo fimm manna úrvalslið af sínum uppáhalds Liverpool-mönnum í gegnum tíðina, og virtist valið koma þeim Stefáni Árna Pálssyni og Alberti Brynjari Ingasyni nokkuð á óvart. Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.

VARsjáin er á Sýn Sport á þriðjudagskvöldum og má finna alla þættina á Sýn+.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×