Fótbolti

Hólm­bert skoraði í úr­slita­leik í Suður-Kóreu

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði í dag en það dugði ekki til.
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði í dag en það dugði ekki til. Instagram/@gwangju_fc

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði eina mark Gwangju þegar liðið lék til úrslita um bikarmeistaratitilinn í fótbolta í Suður-Kóreu í dag.

Mark Hólmberts dugði til að knýja fram framlengingu en að lokum urðu hann og félagar hans að játa sig sigraða gegn Jeonbuk, 2-1.

Jeonbuk hafði áður tryggt sér sigur í suðurkóresku deildinni á meðan að Gwangju endaði efst í neðri hluta deildarinnar. Það var því ljóst að það yrði við ramman reip að draga fyrir lið Hólmberts en miðað við ummæli á Instagram-síðu félagsins voru stuðningsmenn afar stoltir af frammistöðu liðsins.

Jin-Hyung Lee kom Jeonbuk yfir rétt fyri rhálfleik en Hólmbert jafnaði svo metin á 70. mínútu. Í framlengingunni misstu bæði lið menn af velli með rautt spjald en Seung-Woo Lee skoraði svo sigurmarkið í lok fyrri hluta framlengingarinnar.

Hólmbert, sem er 32 ára, kom til Gwangju í ágúst eftir að hafa áður spilað í Þýskalandi, Noregi, Ítalíu og Danmörku, auk þess að spila hér á landi og fara tvítugur til Celtic í Skotlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×