Fótbolti

Mæta liði frá Ís­landi þriðja árið í röð og segjast reynslunni ríkari

Aron Guðmundsson skrifar
Stephen Bradley, þjálfari Shamrock Rovers, hefur verið tíður gestur hér á landi undanfarin ár.
Stephen Bradley, þjálfari Shamrock Rovers, hefur verið tíður gestur hér á landi undanfarin ár. Vísir/Getty

Stephen Bradl­ey, þjálfari Sham­rock Rovers, segir sitt lið búa að þeirri reynslu að hafa reglu­lega á undan­förnum árum spilað við lið frá Ís­landi í Evrópu­keppni. Sham­rock mætir Breiða­bliki á Laugar­dals­velli í Sam­bands­deild Evrópu í kvöld.

Þetta er þriðja árið í röð sem að Stephen og hans menn í Sham­rock Rovers mæta hingað til lands. Árið 2023 laut liðið í lægra haldi fyrir Breiða­bliki í ein­vígi for­keppni Meistara­deildar Evrópu og á síðasta ár, einnig í for­keppni Meistara­deildarinnar, hafði Sham­rock Rovers betur gegn Víkingi Reykja­vík í tveggja leikja ein­vígi.

Klippa: Mættur til Íslands enn á ný og býst við rosalegum leik

Fyrir komandi leik gegn Breiða­bliki í kvöld segir Stephen að­spurður að sitt lið búi að þeirri reynslu að hafa spilað reglu­lega við lið frá Ís­landi.

„Já klár­lega. Við höfum dregið lær­dóm frá fyrri leikjum okkar hér á Ís­landi,“ segir Stephen í sam­tali við íþrótta­deild Sýnar. „Bæði hvernig liðin hér vilja spila fót­bolta en einnig hvaða hugar­fari leik­menn þeirra búa yfir og hvernig þeir nálgast leikinn. Það er mikilvægt fyrir okkur að búa að þessum skilningi frá fyrri viður­eignum okkar síðastliðin tvö ár. Allir leikir okkar hér á Ís­landi hafa verið erfiðir, við búumst við því sama í komandi leik á móti Breiða­bliki.“

Tekur eftir breytingum hjá Breiðabliki

Ekki er ýkja langt síðan að Ólafur Ingi Skúla­son tók við stjórnar­taumunum sem þjálfari Breiða­bliks af Halldóri Árna­syni. Stephen og hans teymi hafa greint leikstíl þeirra grænklæddu úr Kópa­vogi og tekið eftir ein­hverjum breytingum á leik liðsins eftir að Ólafur tók við sem þjálfari.

„Liðið er að ganga í gegnum um­breytingar­ferli en er áfram með mjög góða leik­menn innan sinna raða. Margir af þeim leik­mönnum sem við mættum árið 2023 eru enn í Breiða­bliki og þá lutum við í lægra haldi gegn þeim. Ég veit af þjálfara­breytingunum og hef tekið eftir ein­hverjum breytingum á leik liðsins taktískt séð en á heildina litið eru þarna góðir leik­menn sem ber að varast.“

Hvernig leik býstu við?

„Erfiðum leik. Við förum í þessa síðustu tvo leiki okkar í deildar­keppninni til að sækja öll þau stig sem í boði eru og ég er viss um að Breiða­blik horfi á þennan leik gegn okkur og sjái þar tækifæri til að sækja sigur og þrjú stig. Það ætti að vera góður leikur í vændum, tvö lið sem mæta til leiks með það fyrir augum að sækja sigur og þrjú stig.“

Setja stefnuna á umspilssæti

Stephen, sem spilaði á árum áður fyrir Sham­rock Rovers, hefur verið í þjálfara­t­eymi liðsins frá árinu 2014. Fyrst sem að­stoðarþjálfari en árið 2016 tók hann við sem aðalþjálfari og hefur síðan þá gert liðið fimm sinnum að írskum meisturum og í tví­gang hefur liðið orðið bikar­meistari undir hans stjórn.

Á nýaf­stöðnu tíma­bili á Ír­landi vann Sham­rock Rovers tvennuna, írsku deildina sem og bikar­keppnina, og kemur því með sjálf­s­traustið í botni inn í leik kvöldsins þó svo að ekki hafi tekist að næla í sigur í Sam­bands­deildinni til þessa.

Liðið hefur náð í eitt stig nú þegar að tvær um­ferðir eru eftir af deildar­keppninni. Með sigri í þeim leikjum gæti Sham­rock lyft sér upp í um­spilsæti fyrir 16-liða úr­slit deildarinnar en sjö stig þurfti til að komast áfram á næsta stig keppninnar á síðasta tíma­bili.

„Það er mark­miðið. Við höfum verið óheppnir í síðustu leikjum okkar, til að mynda gegn AEK í Aþenu þar sem að við fengum á okkur mark úr víta­spyrnu undir lok leiks þar sem að við misstum frá okkur sigur. Á móti Shak­htar Do­netsk í síðustu okkur teljum við okkur hafa átt að ná stigi. Ef við vinnum þessa síðustu tvo leiki okkar förum við upp í sjö stig og það gefur okkur mögu­leika á að tryggja okkur sæti í um­spilinu fyrir 16-liða úr­slitin. Kannski mun það ekki nægja, en við sjáum til. Til þessa að eiga mögu­leika verðum við að vinna næstu tvo leiki, það er mark­miðið. “

Krefjandi tímabil tekið við

Líkt og Breiða­blik er Sham­rock Rovers nú að ganga í gegnum krefjandi tíma­bil þar sem að langur tími líður á milli leikja. Keppni heima á Ír­landi er lokið og bara Evrópu­leikir á dag­skránni.

„Þetta er krefjandi tíma­bil og í svona stöðu væri maður til í að spila keppnis­leiki milli um­ferða í Evrópu. Það liðu átján dagar milli úr­slita­leiks írska bikarsins hjá okkur þar til að við spiluðum gegn Shak­htar í Sam­bands­deildinni. Það er erfið staða að vera ekki að spila keppnis­leiki í yfir tvær vikur og fara svo að spila gegn sterkum and­stæðingi á við Shak­htar. Breiða­blik þekkir þessa stöðu líka. Svona er þetta bara, við tökum því og búum að reynslu frá því á síðasta ári. Við vitum því hvað til þarf í svona aðstæðum. Mínir leik­menn verða til­búnir í baráttuna gegn Breiða­bliki.“

Leikur Breiða­bliks og Sham­rock Rovers í Sam­bands­deild Evrópu verður sýndur í beinni út­sendingu á Sýn Sport Viplay og hefst klukkan korter í sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×