Fótbolti

Freyr ekki hrifinn af „hroka­fullum dómara“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Freyr fékk að líta guld spjald fyrir mótmæli við rauðu spjaldi.
Freyr fékk að líta guld spjald fyrir mótmæli við rauðu spjaldi. sýn skjáskot

Eftir frábært gengi í Evrópudeildinni hingað til á tímabilinu varð norska liðið Brann fyrir slæmum skelli í gærkvöldi. Liðið missti mann af velli í fyrri hálfleik, Freyr Alexandersson fékk að líta gult spjald og aðdáendur gestaliðsins reyndu að hjóla í heimamenn.

Brann hafði unnið alla þrjá heimaleikina í Evrópudeildinni áður en liðið tók á móti Fenerbahce í gærkvöldi og tapaði 4-0.

Brann lenti undir snemma og varð síðan manni færri þegar Eivind Helland reif niður sóknarmann sem var að sleppa inn fyrir vörnina. Helland fékk rautt spjald fyrir og þjálfari liðsins, Freyr Alexandersson, uppskar gult spjald fyrir að mótmæla dómnum.

„Þetta var ódýrt rautt spjald. Mjög ódýrt“ sagði Freyr í viðtali við Viaplay eftir leik.

„Þetta er hrokafullur dómari. Ég er ekki hrifinn af því. Ég fékk gult spjald fyrir að sýna honum ekki nægilega virðingu“ sagði Freyr svo um gula spjaldið sem hann fékk en atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Brann fékk rautt og Freyr fékk gult

Eftir leik gerðu stuðningsmenn Fenerbahce tilraun til að stökkva yfir girðingu og ráðast á stuðningsmenn heimaliðsins Brann, talið er að það sé vegna fána sem var veifað í stúkunni og fór fyrir brjóstið á Tyrkjunum.

Fenerbahce menn náðu þó ekki lengra en að lögreglu og öryggisgæslunni sem víggirtu stuðningsmenn Brann. Málið verður rannsakað en framkvæmdastjóri Brann segir myndbandsupptökur of óskýrar til að fara í manngreiningu og líklega muni engum vera refsað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×