Enski boltinn

Miðvarðaæði Liverpool

Valur Páll Eiríksson skrifar
Varnarmenn Liverpool hafa verið skugginn af sjálfum sér í vetur.
Varnarmenn Liverpool hafa verið skugginn af sjálfum sér í vetur. Molly Darlington/Getty Images

Englandsmeistarar Liverpool sanka að sér ungum miðvörðum í unglingalið félagsins á meðan margur hristir hausinn yfir því að félagið styrki ekki varnarlínu aðalliðsins.

Liverpool tilkynnti í vikunni um komu ungs senegalsks miðvarðar að nafni Mor Talla Ndiaye. Sá er hávaxinn 18 ára gamall, örvfættur miðvörður sem heillaði með HM U17 ára liða í nóvember og kemur frá senegalska liðinu Amitié, sem er í eigu Demba Ba, fyrrum framherja Newcastle og Chelsea, fyrir eina milljón punda.

Honum er ætlað beint inn í U21 árs lið Liverpool og er annar miðvörðurinn sem kemur þar inn í janúar. Áður hafði Liverpool fengið hinn 19 ára gamla Noah Adekoya frá Burnley, sem einnig leikur sem miðvörður, og mun spila með U21 árs liðinu.

Noah Adekoya sleit samningi við Burnley í nóvember til að ganga til liðs við Liverpool nú í janúar.Alex Livesey/Getty Images

Þriðji miðvörðurinn, hinn austurríski Ifeanyi Ndukwe er þá væntanlegur í sumar. Ndukwe er 17 ára gamall og leikur fyrir Austria Vín.

Liverpool er að vinna kapphlaup við Inter Milan um undirskrift hans en hann má ekki fara milli landa fyrr en hann nær 18 ára aldri og fer því til Liverpool í sumar fyrir um 2,6 milljónir punda.

Ifeanyi Ndukwe heillaði á HM U17 í Katar. Hér fagnar hann marki sem hann skoraði gegn Englandi á mótinu.Jurij Kodrun - FIFA/FIFA via Getty Images

Ólíklegt þykir að þeir Ndiaye og Adekoya muni styrkja vörn aðalliðs félagsins á yfirstandandi leiktíð en varnarlína Liverpool er fámenn og hefur lekið inn mörkum. Liverpool hefur til að mynda fengið á sig 13 mörk eftir föst leikatriði á tímabilinu og óhætt að segja að titilvörnin hafi ekki gengið sem skyldi.

Liðið rétt missti af Marc Guéhi, fyrirliða og miðverði Crystal Palace, á lokadegi félagsskiptagluggans í sumar þegar Palace hætti við sölu. Guéhi klárar samning við Palace í sumar og er sagður hafa verið áhugasamur um að semja við Liverpool þá.

Það gæti hins vegar verið að breytast vegna slaks gengis liðsins og óvissuna sem fylgir. Manchester City er sagt hafa áhuga á því að fá Guéhi strax í janúar ef hægt er, vegna meiðsla í varnarlínunni þar. Þá er Arsenal áhugasamt um að fá Guéhi í sumar, auk þess sem Bayern Munchen og Real Madrid fylgjast með stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×