Innlent

Enn til skoðunar hvort úr­skurðurinn verði kærður

Bjarki Sigurðsson skrifar
Karl Ingi Vilbergsson er saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
Karl Ingi Vilbergsson er saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. Vísir/Vilhelm

Embætti héraðssaksóknara ákveður í dag hvort úrskurði héraðsdóms um að hafna gæsluvarðhaldskröfu yfir manni sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni í Hafnarfirði verði áfrýjað til Landsréttar eða ekki. 

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embættinu, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. 

Helgi Bjartur Þorvarðarson er ákærður fyrir að hafa nauðgað tíu ára dreng í Hafnarfirði um miðjan september síðastliðinn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði ekki eftir gæsluvarðhaldi yfir Helga eftir að hann var fyrst handtekinn vegna málsins, þar sem embættið taldi sig skorta lagaskilyrði. 

Ákæra var gefin út á föstudag og krafðist þá héraðssaksóknari þess að Helgi yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Því var hafnað. Ákæruvaldið þarf að ákveða í dag hvort úrskurður héraðsdóms verði kærður til Landsréttar. 

Sendi frá sér yfirlýsingu

Í morgun sendi Helgi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann segist ekki sekur um þau brot sem hann er sakaður um. Hann hafi fallið á áfengisbindindi þetta kvöl og um nóttina verið kominn í „blackout“-ástand. 

„Þó að ég hafi verið í þessu ástandi þá hef ég það einfaldlega ekki í mér að vera fær um að gera það sem ég er sakaður um og er saklaus af þeirri ákæru. Þá er ákæran sjálf í miklu ósamræmi við gögn málsins að mínu mati. Það breytir þó engu um þá staðreynd að afleiðingarnar eru raunverulegar, alvarlegar og skelfilegar,“ segir í yfirlýsingunni.

Foreldrarnir ósáttir með að hann gangi laus

Foreldrar drengsins sem Helgi er grunaður um að hafa brotið á ræddu málið við Vísi um helgina. Þau segjast hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar héraðsdómur hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni. Þau upplifa sig í fangelsi á heimili sínu meðan Helgi gengur laus. 

„Þetta er verknaður manneskju sem getur verið fullkomlega fær að gera slíkt aftur. Þetta er ekki eitthvað sem gerðist heldur eitthvað sem einhver gerði,“ sagði móðirin í sláandi viðtali sem lesa má í heild sinni hér fyrir neðan. 

Sjá meira: Út­koman mikill skellur eftir að vonar­neisti kviknaði




Fleiri fréttir

Sjá meira


×