Íslenski boltinn

Trúin eykst á Suður­nesjum með komu McLaug­hlin

Sindri Sverrisson skrifar
Hannah McLaughlin styrkir vörn nýliðanna í sumar.
Hannah McLaughlin styrkir vörn nýliðanna í sumar. Grindavík/Njarðvík

Nýliðarnir í Bestu deild kvenna í fótbolta, sameinað lið Grindavíkur og Njarðvíkur, hafa tryggt sér „frábæran varnarmann“ fyrir átökin í sumar.

Samkvæmt nýbirtum drögum KSÍ mun Grindavík/Njarðvík hefja leik í Bestu deildinni á því að spila við Val 25. apríl, og taka svo á móti Þór/KA á Stakkavíkurvelli fimm dögum síðar.

Suðurnesjaliðið verður þar með hina 22 ára gömlu Hannah McLaughlin innanborðs. Hún er miðvörður sem útskrifaðist í fyrra frá Vanderbilt háskólanum.

Hún lék fyrir skólaliðið í SEC-riðlinum í bandaríska háskólaboltanum sem liðið vann í fyrra.

Miðað við skrif McLaughlin á Instagram er hún afar trúuð og þakklát fyrir tíma sinn hjá Vanderbilt, og vonandi fyrir Suðurnesjamenn að upplifunin verði sú sama hjá liði Grindavíkur/Njarðvíkur.

„Þakka þér Jesús fyrir Vanderbilt - Hvílík blessun sem þetta hefur reynst,“ skrifaði McLaughlin þegar hún kvaddi skólann sinn.

„Vá. Drottinn hefur verið mér svo góður. Fótboltalið Vanderbilt hefur verið svo góð gjöf og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir síðustu þrjú og hálft ár mitt hérna,“ skrifaði hún einnig.

Um er að ræða fyrsta skref McLaughlin í atvinnumennsku og fyrsti þjálfari hennar þar, Gylfi Tryggvason, hafði þetta að segja um nýja leikmanninn: 

„Hannah er frábær varnarmaður með góðan leikskilning og staðsetningar og virkilega fær með boltann. Hún er mikill leiðtogi og frábær karakter sem mun reynast okkur vel í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×