Fótbolti

Viktor Bjarki með tvennu í undir­búningi fyrir Meistaradeildina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Viktor Bjarki fagnar marki. Mun hann bæta fleirum við í Meistaradeildinni í næstu viku? 
Viktor Bjarki fagnar marki. Mun hann bæta fleirum við í Meistaradeildinni í næstu viku?  FCK

Viktor Bjarki Daðason hefur verið sjóðheitur í Meistaradeildinni á þessu tímabili og virðist ætla að halda því áfram núna eftir áramót, í tveimur mjög mikilvægum leikjum gegn ítölsku og spænsku meisturunum. 

U19 ára landsliðsmaðurinn skoraði tvennu í 4-4 jafntefli í æfingaleik gegn Sturm Graz í dag, síðasta æfingaleik FCK fyrir slagina gegn Napoli og Barcelona í næstu og þarnæstu viku.

Fyrra markið skoraði hann með skalla eftir stoðsendingu Marco Lopez og seinna markið skoraði hann eftir að hafa unnið boltann á vallarhelmingi Sturm Graz.

Leikurinn var með óhefðbundnu sniði, fyrstu 90 mínúturnar enduðu með 4-2 sigri Sturm Graz en svo var spilað auka hálftíma þar sem FCK tókst að jafna en Viktor Bjarki var þá farinn út af.

Viktor Bjarki er á átjánda aldursári og varð fyrr í vetur yngsti markaskorari í sögu Meistaradeildarinnar en hann hirti metið af Lamine Yamal, gulldreng Barcelona og spænska landsliðsins.

Hann hefur verið í byrjunarliðinu í báðum æfingaleikjum FCK á nýja árinu og það verður spennandi að sjá hvað þjálfarinn Jacob Neestrup ákveður að gera í næstu leikjum gegn Napoli og Barcelona.

FCK er sem stendur í 24. sæti Meistaradeildarinnar, á mörkum þess að missa af sæti í umspili úrslitakeppninnar.

Danska úrvalsdeildin hefst svo aftur þann 8. febrúar en þar er FCK í 5. sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×