Innlent

Mælir fyrir samgönguáætlun í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra kynnti samgönguáætlun í byrjun desember.
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra kynnti samgönguáætlun í byrjun desember. Vísir/Vilhelm

Gert er ráð fyrir að Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra mæli fyrir samgönguáætlun á Alþingi í dag. Um er að ræða fyrstu samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar en hún er fyrir árin 2026 til 2040 og henni fylgir einnig fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2026 til 2030.

Samgönguáætlun er fyrsta og eina dagskrármálið sem að óbreyttu liggur fyrir þingfundi að loknum óundirbúnum fyrirspurnartíma en þingfundur hefst klukkan þrjú í dag.

Innviðaráðherra kynnti samgönguáætlun í byrjun desember þar sem ný forgangsröðun jarðganga vakti athygli. Þá er lagt upp með að undirbúningur við næstu jarðgöng hefjist 2026 og verði byrjað að bora 2027 en samhliða kynningu samgönguáætlunar var greint frá því að sett yrði á fót innviðafélag um stærri samgönguframkvæmdir.

Nú snýr Eyjólfur Ármannsson aftur úr foreldraorlofi eftir að hann eignaðist dóttur í byrjun janúar og mælir fyrir samgönguáætlun þegar fyrsta umræða um málið hefst á eftir.

Líkt og áður segir hefst þingfundur klukkan 15:00 í dag með óundirbúnum fyrirspurnum þar sem til svara verða forsætisráðherra, atvinnuvegaráðherra, dómsmálaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra. Að því loknu er gert ráð fyrir að fyrsta umræða um samgönguáætlun hefjist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×