Enski boltinn

Hömruðu meðan járnið var heitt í sigri gegn Sunderland

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mateus Fernandes skoraði einkar glæsilegt mark.
Mateus Fernandes skoraði einkar glæsilegt mark. Rob Newell - CameraSport via Getty Images

West Ham tókst að tengja saman sigra og leggja Sunderland að velli með 3-1 sigri í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Öll þrjú mörk West Ham voru skoruð í fyrri hálfleik er heimamenn sýndu mikla yfirburði.

Jarrod Bowen lagði fyrsta markið upp fyrir Crysencio Summerville sem skoraði með hnitmiðuðum skalla. Bowen skoraði síðan annað markið úr vítaspyrnu eftir brot Trai Hume á Oliver Scarles og hárréttan dóm.

Fernandes mundaði fótinn 

Þriðja markið var einkar glæsilegt en þá skaut Mateus Fernandes boltanum í netið af löngu færi.

Sunderland minnkaði muninn um miðjan seinni hálfleik með skallamarki Brian Brobbey eftir fyrirgjöf Nordi Mukiele.

Fernandes átti eftir að munda skotfótinn aftur og West Ham kom boltanum í netið einu sinni enn í uppbótartímanum þegar Tomas Soucek fylgdi sláarskoti hans eftir, en Soucek var dæmdur brotlegur og markið fékk ekki að standa. 

Nálgast Nottingham Forest 

West Ham er enn í fallsæti, átjánda sætinu, en hefur unnið tvo leiki í röð og er nú aðeins tveimur stigum frá Nottingham Forest.

Sunderland hefði með sigri getað jafnað Liverpool að stigum og komið sér upp í fimmta sætið en tapið þýðir að svörtu kettirnir sitja áfram í níunda sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×