Innlent

Fyrr­verandi ráð­herrar ræða alþjóðamálin

Jón Þór Stefánsson skrifar
visir-img

Sprengisandur er á sínum stað á Bylgjunni í dag en þar fær Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi til sín góða gesti og ræðir við þá samfélagsmálin sem brenna á þjóðinni.

Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor við HA, ræðir um varnar- og öryggismál. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er ein af grunnstoðum íslenskra öryggismála en er hann sérstakur samningur eða órjúfanlegur hluti af aðild að Nató, skiptir það máli, samræmdist viðbótin árið 2017 fullveldi Íslands og hefði sú viðbót átt að fara fyrir þingið til samþykktar?

Fyrrverandi ráðherrarnir Þorsteinn Pálsson og Steingrímur J. Sigfússon fara yfir alþjóðamálin í ljósi hræringa síðustu daga og vikna. Hefur þetta áhrif á stöðu Íslands í alþjóðakerfinu, þarf að skoða þessi mál upp á nýtt eða er betra að bíða og sjá hvað gerist áður en lengra er haldið?

Inga Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, og Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ ræða um menntamál. Ummæli menntamálaráðherra um skólakerfið sem hún segir hafa brugðist börnum á síðustu árum hafa vakið mikla athygli. Hvað nákvæmlega átti ráðherrann við og hvernig bregst kennaraforysta við þessari ályktun?

Þórhildur Halldórsdóttir, barnasálfræðingur, dósent við HR, fjallar um samfélagsmiðla og heilann. Er það rétt að samfélagsmiðlar og skjánotkun dragi úr hæfni unglinga til náms, dragi úr einbeitingu og úthaldi, hvað sýna rannsóknir? Gæti þetta verið hluti af skýringu á versnandi árangri íslendinga í Pisa-könnunum?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×