Gagnrýni

Rasistar í sumar­bú­stað

Símon Birgisson skrifar
Þór Tulinius og Jónmundur Grétuson leika í Bústaðnum í Tjarnarbíói ásamt Þórunni Lárusdóttur.
Þór Tulinius og Jónmundur Grétuson leika í Bústaðnum í Tjarnarbíói ásamt Þórunni Lárusdóttur. Björgvin Sigurðarson

Íslensk hjón í sumarbústað lenda í hremmingum þegar myndlistarmaður, dökkur á hörund, sest að fyrir utan heimkeyrslunni að bústaðnum þeirra. Tilvist þessa dularfulla aðkomumanns afhjúpar fáfræði, ótta og fordóma hinna íslensku hjónakorna í nýju leikriti eftir Þór Tulinus sem sýnt er þessa dagana í Tjarnarbíói. Þetta er ekki sýning sem skilur mikið eftir sig, handritið gallað og það vantar skýrari listræna sýn.

Bústaðurinn – Tjarnarbíó. Önnur sýning 15. janúar 2026

Leikrit: Þór Tulinius. Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðmynd: Ásgeir Ásgeirsson. Leikarar: Þór Tulinius, Þórunn Lárusdóttir, Jónmundur Grétarsson.


Óttinn við hið óþekkta

Þór Tulinus leikur aðalhlutverkið, eiginmanninn Tedda, sem á að baki farsælan feril á vinnumarkaði en á erfitt með slaka á með Boggu eiginkonu sinni í bústaðnum (og fullnægja öðrum þörfum hennar). Bogga (Þórunn Lárusdóttir) er yngri en Teddi og óskar þess heitast að Teddi njóti lífsins í sveitasælunni. Hún virðist sátt við að sjá um heimilisstörfin, bera fram kaffið, taka til eftir Tedda en fær ekki þá hlýju og nánd sem hún þráir.

Plakat sýningarinnar.

Teddi er af gamla skólanum, fastur í aðdáun á sér sjálfum, hugmyndum sínum og þekkingu á tungumálinu og sögu þjóðar. Hann virðist á barmi taugaáfalls eða á upphafsstigum minnisglapa – þó það hafi aldrei komið fyllilega í ljós. En hann lætur svo sannarlega gamminn geysa í leikritinu þannig að á köflum velti ég fyrir mér hvort höfundurinn hefði ekki bara átt að setja þetta upp sem einleik.

Hið undirliggjandi þema er rasismi – Teddi lofsyngur gamla góða íslenska mýið en úthúðar ,,nýrri“ tegundum af lúsmýi og moskítóflugum. Hann er líka í heilögu stríði gegn lúpínunni sem hann óttast að taki yfir lóðina þeirra. Ólíkt hinni heilögu gömlu íslensku mýflugu er lúpínan aðskotahlutur, nýbúi sem ógnar íslensku náttúrunni.

Það er því miður ekkert sérlega fínlegt eða klókt við hvernig boðskapnum eða meiningum leikskáldsins er komið á framfæri. Aðskotahluturinn er jú augljóslega dularfulli listamaðurinn – en hver nákvæmlega rótin er fyrir ofsafengnum ótta Tedda við þennan einstakling eða þjóðfélagshópinn sem einstaklingurinn tilheyrir nær leikritið aldrei að útskýra.

Illa skrifuð hlutverk

Svo er það götulistamaðurinn, teiknarinn, sem situr fyrir utan hliðið sama hvernig viðrar. Teddi skilur ekki af hverju hann planti sér ekki niður í Nauthólsvík eða öðrum fjölfarnari stöðum. Þar sé allavega fólk á stangli til að teikna, hægt að vinna sér inn tekjur? Annað en að sitja fyrir utan sumarbústað fjarri alfaraleið.

Þessi hugmynd – götuteiknarinn sem hefur engan til að teikna var að minnsta kosti áhugaverð. Manni varð hugsað til absúrd leikhússins sem á rætur sínar að rekja til miðrar síðustu aldar. Þar tókust leikskáld á borð við Samuel Beckett og Eugéne Ionesco á við heimsmynd eftirstríðssárana þar sem manneskjan hefur engan tilgang lengur eða markmið.

Leikhús fáránleikans gengur hins vegar ekki út á boðskap eða prédikanir. Það er vandamálið við Bústaðinn. Boðskapurinn og skilaboðin eru svo augljós að hinar ,,fáránlegu“ aðstæður verða aldrei fyndnar, óþægilega eða skrýtnar. Maður veit allan tíman nákvæmlega hvað höfundi liggur á hjarta og í hvaða átt verkið stefnir.

Skrifað fyrir styrki

Listamaðurinn (Jónmundur Grétarsson) er aldrei neitt annað en uppfyllingarefni, props, í sýningunni um Tedda og Boggu. Þegar Teddi manar sig loks upp í að bjóða honum inn í bústaðinn, mæta honum augliti til auglitis, drukknum við áhorfendur í orðasúpu Tedda og sú persóna sem maður er mest forvitinn um – dularfulli listamaðurinn kemst ekki að. 

Þarna kemur í ljós einn af stóru göllum sýningarinnar; hlutverkin eru ekki fullmótuð. Til dæmis á Bogga á nokkra spretti í upphafi sýningarinnar en eyðir svo bróðurparti verksins að þurrka af í eldhúsinu og horfa á hina leikarana.

Hjónin Bogga og Teddi.Björgvin Sigurðarson

Bústaðurinn er ekki fyrsta sýningin sem ég sé í vetur sem ætlar sér að afhjúpa rasisma og fordóma Íslendinga. Íbúð 10b í Þjóðleikhúsinu fjallaði um svipaða hluti þar sem einstaklingur með dökkan húðlit setur allt á annan endan á húsfundi í fjölbýlishúsi. Þó aðstæðurnar í Bústaðnum séu aðrar er grunnhugmyndin ekkert ósvipuð. Við (hvítu áhorfendurnir) hlæjum að vandræðagangi (hvítu) leikarana í samskiptum sínum við (svarta) aðkomumanninn. Eflaust lítur þetta allt vel út á styrkjaumsóknum, tjekkað í alls kyns box en vonandi fá íslenskir leikarar með dökkan húðlit að leika önnur hlutverk á næsta leikári en bara þau sem ganga út á að þeir líti öðruvísi út en aðrir. Þá væri íslenskt leikhús raunverulega að taka á rasisma og fordómum.

Furðulegur endir

Það hefði ýmislegt mátt gera betur í þessari uppfærslu. Mér fannst of mikil áhersla í leikstjórninni hjá Ágústu Skúladóttur að láta hlutina líta „raunverulega út“. Dæmi um það var þegar Bogga er með listamaninn í baði hrærir hún í ósýnilegu vatni og þegar Boggi er að njósna um aðkomumanninn í risinu eru þau sífellt að reka sig í ósýnilega burðarbita.

Sama vandamál fannst mér einkenna leikmynd og búninga hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur – í stað þess að leyfa okkur að ímynda okkur bústaðinn var búið að mála útlínur hans með límbandi á gólfið, verkfærageymsla sem notuð var í upphafsatriði leiksins var óþarfi og hefði verið hægt að útfæra á annan hátt.

Og ég get ekki sagt að endirinn hafi heillað mig. Örlög Tedda ráðast baksviðs og Bogga fær útrás fyrir kynferðislegar hvatir sínar í stórfurðulegri baðkarssenu þar sem listamaðurinn er látinn afklæðast fyrir framan áhorfendur. Manni leið hálf vandræðalega meðan á þessu stóð og því ágætt að leikritinu lauk án mikilla eftirmála.

Niðurstaða

Þór Tulinius er í aðahlutverki í sínu eigin leikriti og færist kannski aðeins of mikið í fang. Þrátt fyrir áhugaverðar hugmyndir er handritið gallað. Góður boðskapur afsakar ekki slæma sýningu.


Tengdar fréttir

Móðurmorð í blóðugu jólaboði

Það er alltaf eftirvænting í loftinu á jólafrumsýningu Þjóðleikhússins. Þetta er ekki fjölskylduvænasta jólahefðin, hvorki fyrir áhorfendur né leikara. En sérstakt er það – að mæta í leikhúsið á annan í jólum, sumir komnir beint úr jólaboðum og gleyma sér í leikhúsinu. Jólasýningin í ár var Óresteia. Um fjögurra klukkutíma leikrit eftir Benedict Andrews byggt á blóðugri grískri tragedíu. Og hvað er jólalegra eða íslenskara en fjölskylduharmleikur á jólum? Hvorki leikrit eða leikstjórn Benedict Andrews olli mér vonbrigðum. Þetta var alvöru kjaftshögg á hátíð ljóss og friðar. Sýning sem lætur engan ósnortinn – þá sem treysta sér að mæta það er að segja.

Furðu­leg forréttinda­blinda

Ég var með talsverðar væntingar þegar ég kom í Þjóðleikhúsið á föstudaginn á frumsýninguna á Íbúð 10B. Baltasar Kormákur snýr aftur í leikhúsið, Ólafur Jóhann með nýtt verk, stórleikarar Vesturports á sviðinu – hér er öllu tjaldað til. Niðurstaðan er hins vegar hálfgerð vonbrigði; leikrit sem er ófrumlegt og sýning sem veit ekki í hvaða átt hún ætlar að fara eða hvaða boðskap hún stendur fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.