Innlent

Sigur­víma, hópuppsögn og auðar brekkur

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Kolbeinn Tumi Daðason les kvöldfréttir í kvöld.
Kolbeinn Tumi Daðason les kvöldfréttir í kvöld. vísir

Þjóðin er í sigurvímu eftir stórsigur Íslendinga gegn Slóveníu á EM í dag. Íslendingar eru komnir í undanúrslit á mótinu í þriðja sinn í sögunni. Við verðum í beinni frá Malmö, kíkjum á stemninguna og gerum leikinn upp. Þá fylgjumst við með leiknum með ríkislögreglustjóra sem þjálfaði nokkra í liðinu.

Fjörutíu og fimm manns var sagt upp hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Starfsmenn sem unnið höfðu hjá fyrirtækinu í tugi ára voru meðal þeirra sem sagt var upp. Við hittum starfsfólk og ræðum við framkvæmdastjóra sem segir daginn hafa verið erfiðan.

Frumvarp dómsmálaráðherra um afturköllun alþjóðlegrar verndar síbrotamanna var til umræðu á Alþingi í dag. Við verðum í beinni frá þinginu og heyrum í þingmönnum sem vilja ganga lengra í útlendingamálum.

Þá mætir Kristján Már Unnarsson í myndver og fer yfir spennandi tíðindi sem er að vænta í sjávarútvegi. Mikil eftirvænting ríkir í greininni og menn gera sér vonir um ríflegan loðnukvóta.

Auk þess kíkjum við á sérstaka stöðu í Bláfjöllum. Þar fellur enginn snjór og brekkurnar eru því auðar. Í Sportpakkanum gerum við leikinn upp á ítarlegan hátt og í Íslandi í dag skyggnumst við á bak við tjöldin hjá Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu.

Þetta og fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar, Sýnar og Vísis klukkan 18:30




Fleiri fréttir

Sjá meira


×