Lífið

Í krabba­meins­með­ferð og fæðingar­or­lofi á sama tíma

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Sara hefur nýtt sér stuðning Krafts og segir það hafa skipt sköpum.
Sara hefur nýtt sér stuðning Krafts og segir það hafa skipt sköpum. Samsett

„Lífið fór allt saman á hliðina í smá stund. Það var augljóslega ekki planið að fá bæði þessi risastóru verkefni í hendurnar á sama tíma,” segir Sara Ísabella Guðmundsdóttir en hún greindist með Hodgins-eitilfrumukrabbamein síðasta sumar, einungis fimm vikum eftir að frumburður hennar kom í heiminn. Hún þurfti þar af leiðandi að ganga í gegnum stífa lyfjameðferð á sama tíma og hún var að stíga sín fyrstu skref í móðurhlutverkinu.

Sara er ein þeirra sem segja sögu sína í tengslum við árlega vitundarvakningu Krafts „Lífið er núna.“

Í ár er átakið helgað „Lífið er núna“-armbandinu en á heimasíðu átaksins segir:

Sýnum Kraft í verki, kaupum armbandið og berum það með stolti, stuðningurinn skiptir máli. Þú getur líka gerst Kraftsvinur með mánaðarlegu framlagi eða stökum styrk.

Perlað af krafti er eitt stærsta samfélagslega verkefni landsins. Það er mikilvægt að halda merkjum félagsins á lofti og á sama tíma er þetta ein helsta fjáröflun félagsins. Armbandið segir meira en þúsund orð. Það sýnir samstöðu í verki að bæði perla og bera armbandið og er vettvangur fyrir öll að taka þátt.

Um 90 ungir einstaklingar á aldrinum 18-40 ára greinast á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldu og ástvini þeirra. Kraftur styður við bakið á þeim með þinni hjálp.

Sara hefur nýtt sér stuðning Krafts og segir það hafa skipt sköpum. Hún nefnir til að mynda fjárhagslegan stuðning, en þökk sé svokölluðu lyfjakorti á vegum Krafts þá eru öll lyf niðurgreidd meðan á krabbameinsmeðferð stendur. 

Sara segir að móðurhlutverkið hafi gefið henni óvæntan styrk.Aðsend

„Og það skiptir bara ótrúlega miklu máli, vegna þess að það er svakalega mikill falinn kostnaður.  Jafningjastuðningurinn innan Krafts er líka magnaður, af því að það er svo ómetanlegt að vita af öðrum sem hafa gengið í gegnum það sama og maður sjálfur. 

Að geta hitt aðra sem eru kannski búnir að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð og eru hraustir og sterkir, og fá mann til að trúa því að allt verði í lagi og að lífið sé ekki búið þó að maður fái þessa greiningu. Það er líka svo dýrmætt að geta farið á þennan stað þar sem það er ekkert mál að tala bara um þetta, tala um krabbamein og allt sem fylgir því; það er ekki talað um það eins og það sé eitthvað „big deal“ eða einhver dauðadómur.”

Þann 23. janúar síðastliðinn var stórum áfanga náð. Þá fór Sara í seinustu lyfjagjöfina og var með „útskrifuð.“ Og það var nokkuð táknrænt að akkúrat sama dag fór herferð Krafts í gang.

„Þetta var mjög sérstakur og góður dagur segir Sara; nánasta fólkið mitt kom hingað heim, við vorum með brauð og bakkelsi og opnuðum svo eina kampavínsflösku. Það var búið að vera planið síðan ég fékk greininguna, að opna kampavín þegar meðferðin væri búin.“

Sara lítur björtum augum fram á veginn í dag. Hún getur nú loksins leyft sér að njóta lífsins, njóta móðurhlutverksins og gera plön.

Sara lauk lyfjameðferð fyrir rúmri viku og er bjartsýn á framhaldið.Aðsend

Líkt og fyrr segir þá er átak Krafts í ár helgað Lífið er núna armbandinu.

Og það vill svo til að Edda Björgvinsdóttir leikkona, og amma Söru, er verndari armbandsins.

Amma Söru, Edda Björgvinsdóttir er vernandi Lífið er núna armbandsins - og ber það nafn með rentu.Aðsend

„Mér finnst það svo geggjað og yndislegt. Enda er amma sannkallaður verndari, hún er verndari minn, og verndari allra í fjölskyldunni. Fyrir utan það að hún er besta amma og langamma sem til er í heiminum! Hún og litla mín eiga einstök tengsl.” 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.