Björn Kristjánsson leikur ekki meira með Íslandsmeisturum KR í körfubolta á þessu tímabili. Hann þarf að gangast undir aðgerð á mjöðm. Þetta kemur fram á heimasíðu KR.
Björn hefur glímt við meiðsli í mjöðm í rúmt ár og fer í aðgerð á mjaðmakúlu á næstunni. Búist er við að hann verði frá í 4-5 mánuði.
Björn lék aðeins þrjá leiki með KR í Domino's deild karla í vetur. Í þeim var hann með 8,0 stig, 3,0 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali.
Þá hefur Jakob Örn Sigurðarson verið greindur með brjósklos. Samkvæmt heimasíðu KR festist hann í bakinu í jólafríinu. Óvíst er hversu lengi Jakob verður frá.
Jakob kom til KR frá Borås Basket í Svíþjóð fyrir tímabilið. Hann er með 12,7 stig, 2,8 fráköst og 2,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox eru enn frá hjá KR; Jón Arnór vegna meiðsla og Kristófer vegna veikinda.
KR vann þriggja stiga sigur á Grindavík, 91-94, eftir framlengingu í fyrsta leik sínum eftir áramót í gær.
Króatinn Dino Cinac lék sinn fyrsta leik fyrir KR í gær. Hann skoraði tíu stig og tók sex fráköst.
Eyjólfur Ásberg Halldórsson lék einnig sinn fyrsta leik fyrir KR í nokkur ár. Hann skoraði fimm stig, öll í framlengingunni.

