Menning

Íslenskir réttir öðlast nýtt líf

Þótt matreiðslubækurnar Cool Cuisine og Cool Dishes heiti framandi nöfnum innihalda þær bæði þjóðlegar og nútímalegri uppskriftir að rammíslenskum mat. Þar öðlast hefðbundnir réttir nýtt líf svo sem kjötsúpa, plokkfiskur, hangikjöt og steikt slátur og lýst er hvernig matreiða á lunda, hreindýr, lambakjöt, krækling og ferskan fisk svo nokkuð sé nefnt. Myndirnar eru þannig að maður fær vatn í munninn og hönnun bókanna vekur upp hungur og lyst. Hér er komin góð viðbót við þær ferðamannabækur sem á markaðnum eru og henta líka vel til gjafa. Þær eru í fallegu broti og mjúkar viðkomu. Cool Cuisine er 147 blaðsíður að stærð og í henni eru um 100 uppskriftir en Cool Dishes er í smærra broti, 74 blaðsíður að stærð og í henni er úrval uppskrifta úr fyrrnefndu bókinni. Það er Matarástarkonan góðkunna Nanna Rögnvaldardóttir sem hefur tekið efnið saman og Gísli Egill Hrafnsson er myndasmiðurinn. Vaka Helgafell gefur bækurnar út.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.