Bílkynhneigð 31. janúar 2005 00:01 Skyldi margt fólk bera ástarhug til bílsins síns? Maður hefur að vísu heyrt um fólk sem fær kynörvun af snertingu við efni sem að hætti Pavlovhundanna breytist úr áminningu um hold í sjálfan örvunargjafann. Ýmsir ástar- og lostavakar eru til á þessum tímum hinnar miklu örvunarmettunar þar sem líkneskjan kemur í stað þess sem hún átti upphaflega að tákna - en er bílkynhneigð virkilega svona útbreidd? Förum við bráðum að fá bækur sem hafa að geyma hjartaskerandi ástarsögu ungrar stúlku og bíls? Hvað segja sálfræðingar? Kvölds og morgna dynja á okkur bílaauglýsingar - eins og guðsorð á fólki 18. aldarinnar. Sérhver Íslendingur horfir sennilega að meðaltali á þrjár slíkar á kvöldi. Yfirleitt eru þetta jeppar að böðlast yfir óbrúaðar ár - með þeim merkilega árangri að bílafloti landsmanna miðast einkum við slík ferðalög sem sýnir hvað hægt er að telja fólki trú um með markvissri innrætingu. Að undanförnu hefur hins vegar dunið á okkur auglýsingaherferð um bíla þar sem gengið er fram af manni á óþyrmilegri hátt en nokkurri skáldsögu eftir hneyksliþurfi ungskáld tekst að gera. Hér segir af bílkynhneigðu fólki, manneskjum sem kjósa að elska kaldan málm bílsins og vélræna skilyrðingu hans fremur en að það treysti sér í það flókna samspil andstæðra kennda sem samband við aðra manneskju krefur okkur um. Þetta er bíllinn Gosi, í hann er blásið lífsanda og honum gefnir mennskir eiginleikar. Það er nýtt: í samsvarandi auglýsingum hafði fjölskyldubíllinn áður hlutverk hins vinalega fjölskylduhunds og var sýndur sem kátur og góður aukameðlimur - en hér er bíllinn búinn að ryðja út sjálfri fjölskyldunni í tilfinningalífi bíleigandans, hann kemur í stað hennar. Við keyrðum tvö... Auglýsingin segir: ég er eina stjarnan þín. Hún segir beinlínis: elskaðu mig. Svona eru auglýsingarnar: Gamall slagari gengur - "I bless the day I found you" - á meðan ungar manneskjur sýna kenndir í garð bíls sem samkvæmt venjulegum mælikvörðum myndu útheimta tafarlausa sálfræðimeðferð: strákur fyllir vegg af myndum af bílnum sínum, stúlka á erfitt með að slíta sig frá bílnum þar sem hann stendur í bílastæðahúsi og mænir á hann ástsjúkum augum sem gefa fyrirheit um unað næstu samfunda; ungur maður hefur innréttað bílskúrinn sinn eins og barnaherbergi með máluðum skýjum og hvaðeina svo að bíllinn sofi nú vel þar. Á þessu sjúklega atferli gengur um hríð uns kemur rjómablíð karlmannsrödd sem segir eitthvað á þá leið að við vitum hversu vænt þér þyki um bílinn þinn - og loks nafn á tryggingarfélagi. Kannski er þetta ádeila. Kannski eru hönnuðir að nema ný og ókunn lönd fáránleika og smekkleysis í þeirri viðleitni sinni að deila á það hversu stóran sess bíllinn skipar í lífi nútíma-Íslendinga, leiða okkur fyrir sjónir hversu langt við erum komin á braut firringar, efnishyggju og hlutadýrkunar: "Pabbi, elskar þú bílinn meira en mig?" "Nei nei, Nonni minn, ég meina Siggi..." Bíll í stað manneskju: Þótt pabbinn sé augljóslega bara að grínast við hann Sigga sinn (eða hvað hann heitir) þá er tvískinnungur í þessu: undir lúrir sú hugmynd að kannski sé þetta ekki alveg fjarri lagi - hann elski að minnsta kosti bílinn sinn afar heitt. Og það sé allt í lagi: hann megi það alveg. Hlutverk auglýsingarinnar virðist vera að göfga þessar kenndir, segja við fólk að það sé allt í lagi þótt það eigi auðveldara með að tengjast bílnum sínum tilfinningaböndum en sínum nánustu. Þegar við kaupum okkur bíl - sem við neyðumst flest til að gera vegna þess að hér eru ekki almannasamgöngur þrátt fyrir dreifða byggð - þá er okkur gert að kaupa bílatryggingar. Okkur er líka gert að greiða uppsett verð fyrir þessar lögboðnu tryggingar, en sanngirnina og samkeppnina í því verðlagi sjáum við meðal annars á þessum auglýsingum - að ekki sé talað um húsakynni tryggingarfélaganna. Einhvern veginn finnst manni að þessi lögvernduðu okurfélög ættu að minnsta kosti að sjá sóma sinn í því að hafa hægt um sig; láta að minnsta kosti ógert að reyna að menga hugarfar fólks með herferð sem lýsa má svona: Ég er bíll þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa... elska skaltu bílinn þinn umfram náunga þinn, foreldra, maka eða börn... Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Mun forseti Íslands fremja landráð? Ástþór Magnússon Skoðun Er skynsemi Sigmundar Davíðs o.fl. skynsamleg? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfskaparvíti Samfylkingar og Viðreisnar Birta Karen Tryggvadóttir Skoðun
Skyldi margt fólk bera ástarhug til bílsins síns? Maður hefur að vísu heyrt um fólk sem fær kynörvun af snertingu við efni sem að hætti Pavlovhundanna breytist úr áminningu um hold í sjálfan örvunargjafann. Ýmsir ástar- og lostavakar eru til á þessum tímum hinnar miklu örvunarmettunar þar sem líkneskjan kemur í stað þess sem hún átti upphaflega að tákna - en er bílkynhneigð virkilega svona útbreidd? Förum við bráðum að fá bækur sem hafa að geyma hjartaskerandi ástarsögu ungrar stúlku og bíls? Hvað segja sálfræðingar? Kvölds og morgna dynja á okkur bílaauglýsingar - eins og guðsorð á fólki 18. aldarinnar. Sérhver Íslendingur horfir sennilega að meðaltali á þrjár slíkar á kvöldi. Yfirleitt eru þetta jeppar að böðlast yfir óbrúaðar ár - með þeim merkilega árangri að bílafloti landsmanna miðast einkum við slík ferðalög sem sýnir hvað hægt er að telja fólki trú um með markvissri innrætingu. Að undanförnu hefur hins vegar dunið á okkur auglýsingaherferð um bíla þar sem gengið er fram af manni á óþyrmilegri hátt en nokkurri skáldsögu eftir hneyksliþurfi ungskáld tekst að gera. Hér segir af bílkynhneigðu fólki, manneskjum sem kjósa að elska kaldan málm bílsins og vélræna skilyrðingu hans fremur en að það treysti sér í það flókna samspil andstæðra kennda sem samband við aðra manneskju krefur okkur um. Þetta er bíllinn Gosi, í hann er blásið lífsanda og honum gefnir mennskir eiginleikar. Það er nýtt: í samsvarandi auglýsingum hafði fjölskyldubíllinn áður hlutverk hins vinalega fjölskylduhunds og var sýndur sem kátur og góður aukameðlimur - en hér er bíllinn búinn að ryðja út sjálfri fjölskyldunni í tilfinningalífi bíleigandans, hann kemur í stað hennar. Við keyrðum tvö... Auglýsingin segir: ég er eina stjarnan þín. Hún segir beinlínis: elskaðu mig. Svona eru auglýsingarnar: Gamall slagari gengur - "I bless the day I found you" - á meðan ungar manneskjur sýna kenndir í garð bíls sem samkvæmt venjulegum mælikvörðum myndu útheimta tafarlausa sálfræðimeðferð: strákur fyllir vegg af myndum af bílnum sínum, stúlka á erfitt með að slíta sig frá bílnum þar sem hann stendur í bílastæðahúsi og mænir á hann ástsjúkum augum sem gefa fyrirheit um unað næstu samfunda; ungur maður hefur innréttað bílskúrinn sinn eins og barnaherbergi með máluðum skýjum og hvaðeina svo að bíllinn sofi nú vel þar. Á þessu sjúklega atferli gengur um hríð uns kemur rjómablíð karlmannsrödd sem segir eitthvað á þá leið að við vitum hversu vænt þér þyki um bílinn þinn - og loks nafn á tryggingarfélagi. Kannski er þetta ádeila. Kannski eru hönnuðir að nema ný og ókunn lönd fáránleika og smekkleysis í þeirri viðleitni sinni að deila á það hversu stóran sess bíllinn skipar í lífi nútíma-Íslendinga, leiða okkur fyrir sjónir hversu langt við erum komin á braut firringar, efnishyggju og hlutadýrkunar: "Pabbi, elskar þú bílinn meira en mig?" "Nei nei, Nonni minn, ég meina Siggi..." Bíll í stað manneskju: Þótt pabbinn sé augljóslega bara að grínast við hann Sigga sinn (eða hvað hann heitir) þá er tvískinnungur í þessu: undir lúrir sú hugmynd að kannski sé þetta ekki alveg fjarri lagi - hann elski að minnsta kosti bílinn sinn afar heitt. Og það sé allt í lagi: hann megi það alveg. Hlutverk auglýsingarinnar virðist vera að göfga þessar kenndir, segja við fólk að það sé allt í lagi þótt það eigi auðveldara með að tengjast bílnum sínum tilfinningaböndum en sínum nánustu. Þegar við kaupum okkur bíl - sem við neyðumst flest til að gera vegna þess að hér eru ekki almannasamgöngur þrátt fyrir dreifða byggð - þá er okkur gert að kaupa bílatryggingar. Okkur er líka gert að greiða uppsett verð fyrir þessar lögboðnu tryggingar, en sanngirnina og samkeppnina í því verðlagi sjáum við meðal annars á þessum auglýsingum - að ekki sé talað um húsakynni tryggingarfélaganna. Einhvern veginn finnst manni að þessi lögvernduðu okurfélög ættu að minnsta kosti að sjá sóma sinn í því að hafa hægt um sig; láta að minnsta kosti ógert að reyna að menga hugarfar fólks með herferð sem lýsa má svona: Ég er bíll þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa... elska skaltu bílinn þinn umfram náunga þinn, foreldra, maka eða börn...
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun