Menning

Mataræði mikilvægt á meðgöngu

Rannsóknir sýna sífellt betur hve mataræði kvenna á meðgöngu skiptir gríðarlega miklu máli fyrir börnin og heilsu þeirra alla ævi. Þó að það sé öllum hollt að huga að mataræðinu, passa upp á að borða nóg hollan mat og hæfilega mikið af honum eru það eingöngu konur sem ganga með barn sem þurfa að hugsa um fleiri en sjálfan sig. Anna Sigríður Ólafsdóttir næringarfræðingur segir það skipta miklu máli því með því að borða nóg, þyngjast hæfilega mikið og borða rétt sé haft áhrif á þroska barnsins og vöxt. Fæðingarþyngd hafi heilmikið að segja um bæði um heilsu barna þegar þau koma í heiminn og einnig seinna á lífsleiðinni. Því sé verið að móta barnið til framtíðar. Anna segir að það sem skipti máli sé þyngdaraukningin; fyrir konur í kjörþyngd sé eðlilegt að þyngjast um 12-18 kíló en konum yfir kjörþyngd sé ráðlagt að þyngjast aðeins minna, eða 7-12 kíló. Þessu sé náð með því að borða hæfilega mikið, fjölbreytta fæðu og 3-5 máltíðir á dag ásamt því að hreyfa sig. Þó að konur geti borðað flestar fæðutegundir á meðgöngu ber að varast ýmsar, þar á meðal hráan fisk og ógerilsneyddar mjólkurvörur. Upplýsingar um þetta er hægt að nálgast í nýjum bæklingi, Meðganga og mataræði. Anna var spurð hvort konum væri ráðið annað eftir að barnið er komið í heiminn og er á brjósti. Hún svaraði því til að svo væri í raun ekki því verið væri að ráðleggja konum að neyta góðrar, hollrar og fjölbreyttrar fæðu en ekki að forðast ákveðin matvæli heldur að borða hollan mat. Það skipti alls ekki minna máli þegar barnið væri komið í heiminn því móðurmjólkin endurspegli það sem mæður borði. Hins vegar bendir Anna á að orkuþörfin sé ívið meiri þegar barnið er á brjósti .





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.