Göngum betur um náttúru og auðlindir 5. apríl 2005 00:01 Enn ein alþjóðleg skýrsla um umhverfismál og spjöll á náttúrunni hefur litið dagsins ljós. Hún lýsir umgengni mannsins við náttúruauðlindir heimsins og er umfangsmesta skýrsla um þetta efni sem birt hefur verið. Hún er þörf áminning í peninga-, framleiðslu- og sölukapphlaupinu sem tröllríður heiminum nú til dags. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarp þegar skýrslan var kynnt og sagði að þjóðir heims ættu að nota hana til að breyta um stefnu hvað varðar umgengni við náttúruna. Skýrslan, sem kynnt var í Tókýó á miðvikudag, er unnin af 1360 sérfræðingum frá 95 löndum. Þeir telja að aldrei fyrr hafi menn valdið jafn miklum skaða á náttúrunni og á síðustu árum. Aukin efnahagsumsvif og aukin matvælaframleiðsla hafa verið á kostnað umhverfisins, sem komi fram í því að vatn og andrúmsloft hafi spillst. Gagnrýnt er hve mikið land hafi verið tekið til ræktunar og óhófleg notkun tilbúins áburðar veldur skýrsluhöfundum miklum áhyggjum. Skýrsla þessi er mikil að vöxtum, heilar 2.500 síður, og ætti að geta orðið grundvöllur að betri umgengni þjóða heims við náttúruna. Í henni er bent á leiðir til úrbóta á ýmsum sviðum og ef farið verður eftir þeim er ekki öll nótt úti varðandi verndun náttúrunnar og náttúruauðlinda. Á fundi þjóðarleiðtoga heims í tilefni aldamótanna síðustu var samþykkt ályktun um framtíðarhorfur í heiminum, en upplýsingar í Tókýóskýrslunni eru taldar geta komið í veg fyrir að þau markmið náist sem að var stefnt í ályktun leiðtoganna. Sérstakur kafli er í skýrslunni um fiskistofna og neysluvatnsbirgðir heimsins, en hvort tveggja er talið í mikilli hættu. Því er lýst hvernig ofveiði sums staðar á heimshöfunum hefur eyðilagt mikilvæga fiskistofna og hvernig stöðugt verður erfiðara að afla neysluvatns vegna athafna mannsins. Þarna er komið inn á atriði sem varða okkur Íslendinga sérstaklega. Ef rétt er á málum haldið ættum við að geta orðið fyrirmynd annarra varðandi fiskveiðar og nýtingu vatns. Við höfum þegar haft mikla reynslu af stjórnun fiskveiða sem margar þjóðir líta núorðið til og sækjast eftir þekkingu okkar og reynslu í að byggja upp fiskistofna á sínum heimamiðum. Fram til þessa hafa Íslendingar ekki verið stórtækir í vatnsútflutningi. Margsinnis hefur verið reynt að flytja út vatn en fjarlægðin frá stórum mörkuðum kemur líklega í veg fyrir að við verðum stórútflytjendur á því sviði. Hér rennur hinsvegar mikið vatn til sjávar í orðsins fyllstu merkingu. Okkur hefur verið gjarnt varðandi jökulárnar að horfa fyrst og fremst á þær með virkjunargleraugum. Það verður hinsvegar ekki lengra gengið í þeim efnum, enda næg orka í jörðu, viljum halda áfram á stóriðjubrautinni. Rétt utan borgarmarkanna eru hafnar miklar virkjunarframkvæmdir og á Hengilssvæðinu einu er talið vera meira afl í jörðu en umdeild virkjun við Kárahnjúka á að framleiða. Með skynsamlegri nýtingu orklulinda okkar ættum við að geta lagt okkar af mörkum til bættrar umgengni við náttúruna og komið þannig til móts við áskorun aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að Tókýóskýrslan leiði til breyttrar og betri stefnu til verndar náttúrunni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Kári Jónasson Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun 11 ástæður fyrir því að kjósa Pírata Baldur Karl Magnússon Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Skoðun Ætla Íslendingar að standa vörð um orkuauðlindir sínar? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Enn ein alþjóðleg skýrsla um umhverfismál og spjöll á náttúrunni hefur litið dagsins ljós. Hún lýsir umgengni mannsins við náttúruauðlindir heimsins og er umfangsmesta skýrsla um þetta efni sem birt hefur verið. Hún er þörf áminning í peninga-, framleiðslu- og sölukapphlaupinu sem tröllríður heiminum nú til dags. Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarp þegar skýrslan var kynnt og sagði að þjóðir heims ættu að nota hana til að breyta um stefnu hvað varðar umgengni við náttúruna. Skýrslan, sem kynnt var í Tókýó á miðvikudag, er unnin af 1360 sérfræðingum frá 95 löndum. Þeir telja að aldrei fyrr hafi menn valdið jafn miklum skaða á náttúrunni og á síðustu árum. Aukin efnahagsumsvif og aukin matvælaframleiðsla hafa verið á kostnað umhverfisins, sem komi fram í því að vatn og andrúmsloft hafi spillst. Gagnrýnt er hve mikið land hafi verið tekið til ræktunar og óhófleg notkun tilbúins áburðar veldur skýrsluhöfundum miklum áhyggjum. Skýrsla þessi er mikil að vöxtum, heilar 2.500 síður, og ætti að geta orðið grundvöllur að betri umgengni þjóða heims við náttúruna. Í henni er bent á leiðir til úrbóta á ýmsum sviðum og ef farið verður eftir þeim er ekki öll nótt úti varðandi verndun náttúrunnar og náttúruauðlinda. Á fundi þjóðarleiðtoga heims í tilefni aldamótanna síðustu var samþykkt ályktun um framtíðarhorfur í heiminum, en upplýsingar í Tókýóskýrslunni eru taldar geta komið í veg fyrir að þau markmið náist sem að var stefnt í ályktun leiðtoganna. Sérstakur kafli er í skýrslunni um fiskistofna og neysluvatnsbirgðir heimsins, en hvort tveggja er talið í mikilli hættu. Því er lýst hvernig ofveiði sums staðar á heimshöfunum hefur eyðilagt mikilvæga fiskistofna og hvernig stöðugt verður erfiðara að afla neysluvatns vegna athafna mannsins. Þarna er komið inn á atriði sem varða okkur Íslendinga sérstaklega. Ef rétt er á málum haldið ættum við að geta orðið fyrirmynd annarra varðandi fiskveiðar og nýtingu vatns. Við höfum þegar haft mikla reynslu af stjórnun fiskveiða sem margar þjóðir líta núorðið til og sækjast eftir þekkingu okkar og reynslu í að byggja upp fiskistofna á sínum heimamiðum. Fram til þessa hafa Íslendingar ekki verið stórtækir í vatnsútflutningi. Margsinnis hefur verið reynt að flytja út vatn en fjarlægðin frá stórum mörkuðum kemur líklega í veg fyrir að við verðum stórútflytjendur á því sviði. Hér rennur hinsvegar mikið vatn til sjávar í orðsins fyllstu merkingu. Okkur hefur verið gjarnt varðandi jökulárnar að horfa fyrst og fremst á þær með virkjunargleraugum. Það verður hinsvegar ekki lengra gengið í þeim efnum, enda næg orka í jörðu, viljum halda áfram á stóriðjubrautinni. Rétt utan borgarmarkanna eru hafnar miklar virkjunarframkvæmdir og á Hengilssvæðinu einu er talið vera meira afl í jörðu en umdeild virkjun við Kárahnjúka á að framleiða. Með skynsamlegri nýtingu orklulinda okkar ættum við að geta lagt okkar af mörkum til bættrar umgengni við náttúruna og komið þannig til móts við áskorun aðalritara Sameinuðu þjóðanna um að Tókýóskýrslan leiði til breyttrar og betri stefnu til verndar náttúrunni.