Nýyrðasmíðin er hvítigaldur 25. apríl 2005 00:01 Mér finnst það skrýtið þegar ég heyri ungt fólk segja „nákvæmlega“ í hvert sinn sem það samsinnir einhverju í stað þess að segja „einmitt“ eða „jú“ eða „jamm“ eða „ja-há!“ – jafnvel „svo er“ eða „þannig er það nú í pottinn búið lagsm“. Eða bara „já“. Mér finnst það einkennilegt að heyra ungt fólk tala um að eitthvaðsé „þvílíkt mikið“ eða „þvílíkt gott“. Mér finnst það furðulegt að heyra ungt fólk tönnlast á orðinu „skilurðu“ áður en það hefur boðið manni upp á setningu sem gerir manni kleift að svara spurningunni. Og hvað ætla ég að gera í þessu? Ekki neitt. Ég ætla bara að halda áfram að eldast og njóta þeirra forréttinda að finnast ungt fólk undarlegt. Hvað ætti ég svo sem að gera: hringja á lögregluna? Klaga í Íslenska málstöð? Svo er komið málvitund okkar að það kann að virðast jafn tilgangslaust að amast við málfari annars fólks og að fetta fingur út í klæðaburð þess. Málfar er klæðaburður þess. Málsniðin eru mörg og misklæðileg. Orðin eru fötin sem hugsanir okkar klæðast. Sumt fólk aðhyllist ljótt mál: það notar krumpugallaorð, talar í slitnum bolum og tjáir sig í endurunnum flís-frösum. Aðrir eru páfuglar orðanna: skreyta mál sitt með glaðlegum og litríkum en stundum nokkuð ósamstæðum orðum sem benda fremur á sjálf sig en einhverja hugsun. Sumt fólk er vandað og smekklegt og velur orðin ævinlega í réttum hljómi og viðeigandi en ögn dauflegum lit – annað fólk er smekklaust og velur gjarnan orð sem koma öðruvísi út en þeim var ætlað. Sumt fólk notar tungumálið til að dyljast en annað fólk er berort og lætur skína inn í kviku. Sumt fólk er haldið tilfinningalegri strípihneigð, flettir sig orðum, lætur okkur halda að það sé að sýna okkur raunverulegar kenndir sínar en er kannski bara að sýna eftirlíkingar á tilfinningum. Annað fólk er nákvæmt og vill segja satt. Sumt fólk notar bara eitt orð í einu og staldrar við í leit að hreinu orði; sumt fólk er frumlegt og finnur ótrúlega ilmrík, mjúk, hörð eða geislandi orð; sumt fólk talar með framandi hreim sem okkur getur fundist ómótstæðilega fallegur. Og sumt fólk er þvílíkt ekki að gera sig. Og svo framvegis. Íslenskan á sér ótal mörg málsnið sem hvert og eitt hefur sín einkenni og sína fegurð. Það var hér maður á dögunum að ráða okkur Íslendingum heilt um það hvernig við eigum að skynja og umgangast tungumálið okkar. Hann kom frá Wales. Einhver kynni að segja að þangað sé fátt að sækja um það hvernig varðveita á örlítið tungumál en það er sama hvaðan heilræðin koma – séu þau góð. Að þessu sinni voru þau alveg prýðileg enda hefur verið farið eftir þeim hér á landi í að minnsta kosti tuttugu ár. Maðurinn frá Wales virtist standa í þeirri trú að hér væri rekin einstrengingsleg hreintungustefna þar sem orðum eins og „ókei“ og „frík“ og „brúka“ sé úthýst jafnharðan af þungbúnum orðatollvörðum. Ekki er alveg ljóst hvaðan honum kemur sú viska því í málinu er urmull erlendra tökuorða en vera kann að honum hafi vaxið í augum sá gamli siður Íslendinga að smíða nýyrði sér til skemmtunar. Í sjálfu sér er ekki auðvelt að útskýra hvers vegna skemmtilegt er að eiga orðið „síma“ um„telefón“ og hvers vegna mér þykir „rafmagn“ fegurra en „elektrisítet“; hvers vegna mér finnst ágætt að geta stundum sagt „traktor“ og stundum „dráttarvél“, allt eftir því í hvaða skapi ég er – og hvers vegna auðveldara er að skilja fyrirbærið „blöndung“ en karborator. Við verðum að láta okkur nægja að nefna að íslensku orðin hafa orðið til við umhugsun og þar með löngun til að brjóta fyrirbærið til mergjar. Það er nokkurs virði. Orðin gefa okkur vald yfir fyrirbærunum. Með nýyrðasmíðinni tekurðu eitthvað ankannalegt og fjarlægt og tekur það í sundur, kryfur það – nefnir það. Þetta er það sem bókin Nafn rósarinnar fjallar um: í nafninu felst mátturinn. Með nýyrðasmíðinni hættir hinn afskekkti afdalamaður að vera utanveltu þiggjandi í veröldinni og skapar sjálfur eðli fyrirbæranna því að í nafninu flest eðlið. Þetta snýst um sjálfsvitund. Þetta snýst um tilfinningu fyrir sínu eigin framlagi í lífi sínu. Í nafninu felst galdurinn. Löngunin til að skapa í stað þess að þiggja, starfa þegar maður gæti allt eins hímt, nefna en ekki bara japla – þessi löngun er sjálft hið mennska undur. Nýyrðasmíðin er hvítigaldur okkar aldar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Mun forseti Íslands fremja landráð? Ástþór Magnússon Skoðun Er skynsemi Sigmundar Davíðs o.fl. skynsamleg? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfskaparvíti Samfylkingar og Viðreisnar Birta Karen Tryggvadóttir Skoðun
Mér finnst það skrýtið þegar ég heyri ungt fólk segja „nákvæmlega“ í hvert sinn sem það samsinnir einhverju í stað þess að segja „einmitt“ eða „jú“ eða „jamm“ eða „ja-há!“ – jafnvel „svo er“ eða „þannig er það nú í pottinn búið lagsm“. Eða bara „já“. Mér finnst það einkennilegt að heyra ungt fólk tala um að eitthvaðsé „þvílíkt mikið“ eða „þvílíkt gott“. Mér finnst það furðulegt að heyra ungt fólk tönnlast á orðinu „skilurðu“ áður en það hefur boðið manni upp á setningu sem gerir manni kleift að svara spurningunni. Og hvað ætla ég að gera í þessu? Ekki neitt. Ég ætla bara að halda áfram að eldast og njóta þeirra forréttinda að finnast ungt fólk undarlegt. Hvað ætti ég svo sem að gera: hringja á lögregluna? Klaga í Íslenska málstöð? Svo er komið málvitund okkar að það kann að virðast jafn tilgangslaust að amast við málfari annars fólks og að fetta fingur út í klæðaburð þess. Málfar er klæðaburður þess. Málsniðin eru mörg og misklæðileg. Orðin eru fötin sem hugsanir okkar klæðast. Sumt fólk aðhyllist ljótt mál: það notar krumpugallaorð, talar í slitnum bolum og tjáir sig í endurunnum flís-frösum. Aðrir eru páfuglar orðanna: skreyta mál sitt með glaðlegum og litríkum en stundum nokkuð ósamstæðum orðum sem benda fremur á sjálf sig en einhverja hugsun. Sumt fólk er vandað og smekklegt og velur orðin ævinlega í réttum hljómi og viðeigandi en ögn dauflegum lit – annað fólk er smekklaust og velur gjarnan orð sem koma öðruvísi út en þeim var ætlað. Sumt fólk notar tungumálið til að dyljast en annað fólk er berort og lætur skína inn í kviku. Sumt fólk er haldið tilfinningalegri strípihneigð, flettir sig orðum, lætur okkur halda að það sé að sýna okkur raunverulegar kenndir sínar en er kannski bara að sýna eftirlíkingar á tilfinningum. Annað fólk er nákvæmt og vill segja satt. Sumt fólk notar bara eitt orð í einu og staldrar við í leit að hreinu orði; sumt fólk er frumlegt og finnur ótrúlega ilmrík, mjúk, hörð eða geislandi orð; sumt fólk talar með framandi hreim sem okkur getur fundist ómótstæðilega fallegur. Og sumt fólk er þvílíkt ekki að gera sig. Og svo framvegis. Íslenskan á sér ótal mörg málsnið sem hvert og eitt hefur sín einkenni og sína fegurð. Það var hér maður á dögunum að ráða okkur Íslendingum heilt um það hvernig við eigum að skynja og umgangast tungumálið okkar. Hann kom frá Wales. Einhver kynni að segja að þangað sé fátt að sækja um það hvernig varðveita á örlítið tungumál en það er sama hvaðan heilræðin koma – séu þau góð. Að þessu sinni voru þau alveg prýðileg enda hefur verið farið eftir þeim hér á landi í að minnsta kosti tuttugu ár. Maðurinn frá Wales virtist standa í þeirri trú að hér væri rekin einstrengingsleg hreintungustefna þar sem orðum eins og „ókei“ og „frík“ og „brúka“ sé úthýst jafnharðan af þungbúnum orðatollvörðum. Ekki er alveg ljóst hvaðan honum kemur sú viska því í málinu er urmull erlendra tökuorða en vera kann að honum hafi vaxið í augum sá gamli siður Íslendinga að smíða nýyrði sér til skemmtunar. Í sjálfu sér er ekki auðvelt að útskýra hvers vegna skemmtilegt er að eiga orðið „síma“ um„telefón“ og hvers vegna mér þykir „rafmagn“ fegurra en „elektrisítet“; hvers vegna mér finnst ágætt að geta stundum sagt „traktor“ og stundum „dráttarvél“, allt eftir því í hvaða skapi ég er – og hvers vegna auðveldara er að skilja fyrirbærið „blöndung“ en karborator. Við verðum að láta okkur nægja að nefna að íslensku orðin hafa orðið til við umhugsun og þar með löngun til að brjóta fyrirbærið til mergjar. Það er nokkurs virði. Orðin gefa okkur vald yfir fyrirbærunum. Með nýyrðasmíðinni tekurðu eitthvað ankannalegt og fjarlægt og tekur það í sundur, kryfur það – nefnir það. Þetta er það sem bókin Nafn rósarinnar fjallar um: í nafninu felst mátturinn. Með nýyrðasmíðinni hættir hinn afskekkti afdalamaður að vera utanveltu þiggjandi í veröldinni og skapar sjálfur eðli fyrirbæranna því að í nafninu flest eðlið. Þetta snýst um sjálfsvitund. Þetta snýst um tilfinningu fyrir sínu eigin framlagi í lífi sínu. Í nafninu felst galdurinn. Löngunin til að skapa í stað þess að þiggja, starfa þegar maður gæti allt eins hímt, nefna en ekki bara japla – þessi löngun er sjálft hið mennska undur. Nýyrðasmíðin er hvítigaldur okkar aldar.
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun