Börn eru nauðsynleg 22. júní 2005 00:01 Börn eru bráðnauðsynleg, nema hvað, og það þarf því kannski ekki að koma mönnum mjög á óvart, að þau skuli að ýmsu leyti líkjast öðrum lífsnauðsynjum. Flestar nauðsynjar eru þeirrar náttúru, að menn kaupa minna af þeim og meira af munaðarvarningi eftir því sem efnahagur þeirra batnar. Börn eru alveg eins að þessu leyti: batnandi hagur dregur úr barneignum. Það var algengt á fyrri tíð, að konur eignuðust þetta fjögur, sex, átta börn, sumar jafnvel tíu, tólf eða sextán, en það er sjaldgæft nú orðið. Íslenzkar konur eignuðust að jafnaði 5,7 lifandi börn 1853 og 4,3 börn 1960. Nú er frjósemin komin niður í tvö börn á hverja konu. Fólksfjölgunin hefur hægt á sér eftir því. Íslendingum fjölgaði um 2,3 prósent 1960, en aukningin hefur numið aðeins 0,7 prósent á ári nokkur undangengin ár. Mannfjölgun á Íslandi stafar nú öll af innflutningi fólks frá útlöndum, þar eð tvö börn á hverja konu myndu ekki duga til að halda fólksfjöldanum í horfinu (til þess þyrfti 2,1 barn á hverja konu, því að sumar konur eignast engin börn). Ísland er engin undantekning frá þeirri almennu reglu, að batnandi hagur dregur úr fólksfjölgun. Sama munstur birtist í mannfjöldatölum annars staðar að. Í mörgum fátækustu löndum heims er ekkert lát á viðkomunni: Þar halda konur áfram að eignast sex eða sjö börn að jafnaði eins og ekkert sé, t.d. í Afganistan og Kongó. Hvers vegna? Í fyrsta lagi eru menntunarskilyrði af skornum skammti í þessum löndum og mörgum öðrum, svo að kvenna bíður þá annað hvort erfiðisvinna utan heimilis eða innan, og þær velja iðulega síðari kostinn, fái þær á annað borð nokkru ráðið um niðurstöðuna. Í annan stað hneigist fátækt fólk til að hlaða niður börnum í þeirri von, að eitthvert þeirra giftist ekki burt og geti þá séð fyrir foreldrunum í ellinni. Barneignum er m.ö.o. ætlað að koma í stað ellilífeyris og annarrar ellihjálpar í löndum, þar sem lítilli eða engri velferðarþjónustu af hálfu almannavaldsins er til að dreifa. Batnandi efnahagur heldur aftur af fólksfjölgun m.a. vegna þess að ellitryggingar og aðrar velferðarbætur draga úr nauðsyn þess að eignast bara nógu mörg börn til þess, að eitt þeirra verði þá kannski eftir heima hjá foreldrunum. Sum Afríkulönd eru nú fyrst að innleiða ellilífeyri og munu þá með því móti búa í haginn fyrir hægari fólksfjölgun. Það er öðrum þræði tilgangurinn. Tilgangurinn? Hvernig má það vera? Barnmargar fjölskyldur í fátækum löndum neyðast stundum til að leggja mismikla rækt við börnin, þar eð þær hafa t.d. ekki ráð á að senda þau öll í skóla. Á fyrri tíð voru synirnir frekar sendir í skóla en dæturnar, og þannig er þetta enn sums staðar, og af því leiðir aðstöðumun og óréttlæti, sem ekki hefur enn tekizt að uppræta víðast hvar um þróunarlöndin. Þannig hefur mikill mannauður farið til spillis. Ör fólksfjölgun hneigist þar að auki til þess að halda aftur af hagvexti vegna þess, að mikil ómegð á heimilum dreifir kröftunum og tekjur heimilanna hrökkva skemmra en ella og hvert barn fær þá að jafnaði lakari aðhlynningu en ella. Þess vegna ríður á því, að fátækum þjóðum takist að koma sér upp almannatryggingum að evrópskri fyrirmynd, því að þá mun draga enn frekar úr fólksfjölgun, og það örvar hagvöxtinn. Leyfum tölunum að tala. Rannsóknir hagfræðinga sýna, að hjöðnun fólksfjölgunar um 2 prósent á ári örvar vöxt landsframleiðslu á mann að jafnaði um 1 prósent á ári frá einu landi til annars. Hvað þýðir þetta? Takist þjóð, sem fjölgar um 3 prósent á ári, að stilla strengi sína svo, að henni fjölgi eftirleiðis um 1 prósent á ári, þá getur hún vænzt þess, að hagvöxtur á mann aukist úr t.d. 2 prósentum á ári í 3 prósent - og það er hvorki meira né minna en helmingsaukning. Það er því brýnt fyrir fátækar þjóðir að finna leiðir til að hamla fólksfjölgun og láta sér í léttu rúmi liggja ófyrirleitinn áróður kaþólsku kirkjunnar gegn getnaðarvörnum. Kínverjum tókst þetta, en þeir fóru heldur harðneskjulega leið að settu marki: Þeir lögðu þungaskatt á foreldra, sem eignuðust fleiri börn en eitt. Það ætti þó ekki að vera sérstakt keppikefli að kýla fólksfjölgunina niður að neðstu mörkum, því þá mun gömlu fólki fjölga örar en ungu fólki, og unga fólkinu, sem smám saman kemst á vinnualdur, mun þá ekki fjölga nóg til að geta með góðu móti séð fyrir eldri kynslóðinni, þegar hún kemst á eftirlaun. Fólkinu má því helzt ekki fjölga of hægt og ekki heldur of hratt. Hóf er skást. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Börn eru bráðnauðsynleg, nema hvað, og það þarf því kannski ekki að koma mönnum mjög á óvart, að þau skuli að ýmsu leyti líkjast öðrum lífsnauðsynjum. Flestar nauðsynjar eru þeirrar náttúru, að menn kaupa minna af þeim og meira af munaðarvarningi eftir því sem efnahagur þeirra batnar. Börn eru alveg eins að þessu leyti: batnandi hagur dregur úr barneignum. Það var algengt á fyrri tíð, að konur eignuðust þetta fjögur, sex, átta börn, sumar jafnvel tíu, tólf eða sextán, en það er sjaldgæft nú orðið. Íslenzkar konur eignuðust að jafnaði 5,7 lifandi börn 1853 og 4,3 börn 1960. Nú er frjósemin komin niður í tvö börn á hverja konu. Fólksfjölgunin hefur hægt á sér eftir því. Íslendingum fjölgaði um 2,3 prósent 1960, en aukningin hefur numið aðeins 0,7 prósent á ári nokkur undangengin ár. Mannfjölgun á Íslandi stafar nú öll af innflutningi fólks frá útlöndum, þar eð tvö börn á hverja konu myndu ekki duga til að halda fólksfjöldanum í horfinu (til þess þyrfti 2,1 barn á hverja konu, því að sumar konur eignast engin börn). Ísland er engin undantekning frá þeirri almennu reglu, að batnandi hagur dregur úr fólksfjölgun. Sama munstur birtist í mannfjöldatölum annars staðar að. Í mörgum fátækustu löndum heims er ekkert lát á viðkomunni: Þar halda konur áfram að eignast sex eða sjö börn að jafnaði eins og ekkert sé, t.d. í Afganistan og Kongó. Hvers vegna? Í fyrsta lagi eru menntunarskilyrði af skornum skammti í þessum löndum og mörgum öðrum, svo að kvenna bíður þá annað hvort erfiðisvinna utan heimilis eða innan, og þær velja iðulega síðari kostinn, fái þær á annað borð nokkru ráðið um niðurstöðuna. Í annan stað hneigist fátækt fólk til að hlaða niður börnum í þeirri von, að eitthvert þeirra giftist ekki burt og geti þá séð fyrir foreldrunum í ellinni. Barneignum er m.ö.o. ætlað að koma í stað ellilífeyris og annarrar ellihjálpar í löndum, þar sem lítilli eða engri velferðarþjónustu af hálfu almannavaldsins er til að dreifa. Batnandi efnahagur heldur aftur af fólksfjölgun m.a. vegna þess að ellitryggingar og aðrar velferðarbætur draga úr nauðsyn þess að eignast bara nógu mörg börn til þess, að eitt þeirra verði þá kannski eftir heima hjá foreldrunum. Sum Afríkulönd eru nú fyrst að innleiða ellilífeyri og munu þá með því móti búa í haginn fyrir hægari fólksfjölgun. Það er öðrum þræði tilgangurinn. Tilgangurinn? Hvernig má það vera? Barnmargar fjölskyldur í fátækum löndum neyðast stundum til að leggja mismikla rækt við börnin, þar eð þær hafa t.d. ekki ráð á að senda þau öll í skóla. Á fyrri tíð voru synirnir frekar sendir í skóla en dæturnar, og þannig er þetta enn sums staðar, og af því leiðir aðstöðumun og óréttlæti, sem ekki hefur enn tekizt að uppræta víðast hvar um þróunarlöndin. Þannig hefur mikill mannauður farið til spillis. Ör fólksfjölgun hneigist þar að auki til þess að halda aftur af hagvexti vegna þess, að mikil ómegð á heimilum dreifir kröftunum og tekjur heimilanna hrökkva skemmra en ella og hvert barn fær þá að jafnaði lakari aðhlynningu en ella. Þess vegna ríður á því, að fátækum þjóðum takist að koma sér upp almannatryggingum að evrópskri fyrirmynd, því að þá mun draga enn frekar úr fólksfjölgun, og það örvar hagvöxtinn. Leyfum tölunum að tala. Rannsóknir hagfræðinga sýna, að hjöðnun fólksfjölgunar um 2 prósent á ári örvar vöxt landsframleiðslu á mann að jafnaði um 1 prósent á ári frá einu landi til annars. Hvað þýðir þetta? Takist þjóð, sem fjölgar um 3 prósent á ári, að stilla strengi sína svo, að henni fjölgi eftirleiðis um 1 prósent á ári, þá getur hún vænzt þess, að hagvöxtur á mann aukist úr t.d. 2 prósentum á ári í 3 prósent - og það er hvorki meira né minna en helmingsaukning. Það er því brýnt fyrir fátækar þjóðir að finna leiðir til að hamla fólksfjölgun og láta sér í léttu rúmi liggja ófyrirleitinn áróður kaþólsku kirkjunnar gegn getnaðarvörnum. Kínverjum tókst þetta, en þeir fóru heldur harðneskjulega leið að settu marki: Þeir lögðu þungaskatt á foreldra, sem eignuðust fleiri börn en eitt. Það ætti þó ekki að vera sérstakt keppikefli að kýla fólksfjölgunina niður að neðstu mörkum, því þá mun gömlu fólki fjölga örar en ungu fólki, og unga fólkinu, sem smám saman kemst á vinnualdur, mun þá ekki fjölga nóg til að geta með góðu móti séð fyrir eldri kynslóðinni, þegar hún kemst á eftirlaun. Fólkinu má því helzt ekki fjölga of hægt og ekki heldur of hratt. Hóf er skást.