Fyrsta tap Hopkins í 12 ár

Hnefaleikakappinn Bernard Hopkins tapaði fyrsta bardaga sínum í rúm tólf ár þegar mótherji hans, Jermain Taylor, hafði betur í Las Vegas í gærkvöldi. Hinn fertugi Hopkins var að verja titil sinn í millivigt í 21. sinn. Síðast beið hann lægri hlut fyrir Roy Jones í maí 1993. Tveir dómaranna dæmdu Taylor í vil en einn var á bandi Hopkins. Taylor hefur nú unnið 24 bardaga í röð en hann sagði eftir bardagann að ákvörðun dómaranna hefði komið sér á óvart. Taylor segist reiðubúinn að mæta Hopkins á nýjan leik. Hopkins ætlar næst að keppa í léttþungavigt og vonast til þess að mæta Antonio Tarver.