Íslandsmeistarar Breiðabliks í knattspyrnu kvenna lögðu austurríska liðið Neulengbach, 3-0, í undankeppni Evrópumóts félagsliða í gær. Blikastúlkur hafa þar með tryggt sér farseðil í aðra umferð keppninnar sem fram fer 12. 17. september.
Hin magnaða Greta Mjöll Samúelsdóttir kom Blikum á bragðið á 37. mínútu og Erna Björk Sigurðardóttir bætti öðru marki við rétt fyrir leikhlé. Greta Mjöll skoraði síðan sitt annað mark á 50. mínútu og gulltryggði frábæran sigur Breiðabliks.