Óvíst er hvort sóknarmaðurinn Wayne Rooney verði með Manchester United þegar liðið tekur á móti Fulham í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi. Rooney á við meiðsli í nára að stríða og sagði Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, að ekki væri víst hvort Rooney yrði búinn að ná sér fyrir næstu helgi en United á leik gegn Fulham.
Rooney lék ekki með United á laugardag þegar liðið lagði spænska liðið Sevilla að velli 3-0 í æfingaleik. „Þessi meiðsli sem hann er að glíma við eru alls ekkert alvarleg en óvíst er hvort hann geti verið með næsta sunnudag,“ sagði Ferguson.