Skáldaskagi 21. ágúst 2006 00:01 Tröllaskagi heitir skaginn á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Ég var á róli þar í kring þegar það rann upp fyrir mér að þessi tígulegi landshluti hefur fóstrað ótrúlega mörg skáld. Og það engin smáskáld. Í kjölfarið kom mér hug eilítill ferðatúr sem ferðaþjónustumenn norðan heiða gætu komið á laggir: Skáldaskagi-hringferð í ljóðum. Á ensku: The Pen-Insula-A Poetical Journey. Ferðin umhverfis Tröllaskaga er dagsferð og hefst að sjálfsögðu á Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar. Hér stíga álfar út úr hólum og fara með frægar línur. Smávinir fagrir, foldarskart... Fífilbrekka, gróin grund... Neðar í dalnum eru Steinsstaðir, hvar Jónas bjó í bernsku. Þar birtist okkur drenghnokki innan úr bæ, klæddur í buxur, vesti, brók og skó. Næst er áð á Bægisá. Tinda fjalla ég sé alla undir snjá, orti Jón á Bægisá til Bjarna Thorarensen, amtmanns á Mörðuvöllum, kvæði sem Jónas orti reyndar upp síðar. Bjarni orti til Jóns: Heill sértu mikli / Milton íslenskra! Jónas orti að Bjarna látnum: Skjótt hefur sól brugðið sumri... Hér er skáldaþing! Við færum okkur niður í Hörgárdal. Á Ásgerðarstöðum (nú í eyði) fæddist árið 1785, Rósa Guðmundsdóttir, Vatnsenda-Rósa, sem orti frægustu hendingar Íslandssögunnar, okkar fegurstu tjáningu á ástarsorg. Þar sem ferðagestir standa á yfirgrónu bæjarhlaði kemur leikari ríðandi í hlutverki elskhugans frá Möðruvöllum og syngur hágrátandi vísurnar sem ortar voru um og til hans: Augun mín og augun þín, / ó þá fögru steina. / Mitt er þitt og þitt er mitt. / Þú veist hvað ég meina. Síðan birtist roskin Rósa undan steini og fer með snilldina sem til varð er þau hittust löngu síðar: Man ég okkar fyrri fund, / forn þó ástin réni. / Nú er eins og hundur hund / hitti á tófugreni. Á Möðruvöllum sat Bjarni sem fyrr er getið. Eldgamla Ísafold, / ástkæra fósturmold, / Fjallkonan fríð! Hér fæddist líka hinn fyrrum heimsfrægi Jón Sveinsson, Nonni. Sem og Hannes nokkur Hafstein, stórskáld og ráðherra; sá maður sem komist hefur næst því að yrkja eins og Jónas: Þar sem háir hólar / hálfan dalinn fylla / lék í ljósi sólar / lærði hörpu að stilla / hann sem kveða kunni / kvæðin ljúfu, þýðu... Fyrstu tvær línurnar eru eftir JH. Leiðin liggur út með Eyjafirði, að Fagraskógi. Hér kom í heiminn frægasta skáld tuttugustu aldar. Davíð Stefánsson sló snemma í gegn en varð jafn snemma hallærislegur talinn og dæmdur úr leik af Reykjavíkurelítunni. Víst er Davíð alltaf ögn sveitó á sinn sér-norðlenska hátt en hann er líka stór í sér og senn verður tímabært að endurreisa þetta skáld sem á margar af okkar liprustu línum. Hér þarf því mikla dagskrá. Tenór stendur úti á tröppum og tekur gestum fagnandi: Þú komst í hlaðið á hvítum hesti. Inni í bæ situr Konan sem kyndir ofninn minn. Í lundinum stendur ljóska: Þinn líkami er fagur / sem laufguð björk / en sálin er ægileg / eyðimörk. Og niðrí fjöru heill karlakór sem kyrjar út fjörðinn: Sjá dagar koma og Brennið þið vitar. Ekkert skáld er meira sungið en Davíð. Og fá skáld eru vinsælli en það sem rekur ættir til Tjarnar í Svarfaðardal. Í hlíðinni ofan við bæinn situr Þórarinn Eldjárn í haglega ortum bústað sínum og mælir af munni fram fyrir rímþyrsta farþega: Skyldi nú ekki vera vit / að vistast hér í bili / við hrossagauksins þýða þyt / og þennan bláa og græna lit / og róa á réttum kili. Þá er haldið í gegnum Dalvík og Ólafsfjarðargöng, um kaupstaðinn og yfir Lágheiði. Lögun hennar veldur því að á korti er hringvegurinn um Tröllaskaga hjartalaga: Þar er plakatið fyrir túrinn komið. (Því verður Lágheiðin áfram farin í þessum ferðum, jafnvel eftir opnun Héðinsfjarðarganga.) Þegar komið er niður í Fljótin er farið hjá eyðibýlinu Lundi sem sagnamaskínan Guðrún er kennd við. Síðan ber fátt við skáldasögu þar til ekið er að bænum Gröf á Höfðaströnd. Úr henni skreið sálmaskáld í heiminn. Upp, upp, mín sál / og allt mitt geð. Það er ögn drungaleg stemning yfir elsta guðshúsi landsins sem hér stendur og kannski við hæfi. Skagfirski tónninn á skáldhörpunni er ögn dimmari en sá eyfirski. Allt eins og blómstrið eina / upp vex á sléttri grund... Hér gefur að líta grund Hallgríms Péturssonar. Nú liggur leiðin aftur inn á þjóðveg eitt. Dagsferðin endar innst í Blönduhlíð, við bæinn Bólu sem Hjálmar er kenndur við, þó fæddur sé annarstaðar. Hann slær botninn í Skáldaskaga: Víða til þess vott ég fann, / þó venjist oftar hinu, / að guð á margan gimstein þann / sem glóir í mannsorpinu. Fáir landshlutar luma á fleiri gimsteinum en The Pen-Insula. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Er skynsemi Sigmundar Davíðs o.fl. skynsamleg? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfskaparvíti Samfylkingar og Viðreisnar Birta Karen Tryggvadóttir Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun Þarf Ábyrg framtíð 14,1% til að komast í kappræður Heimildarinnar? Jóhannes Loftsson Skoðun Er heilbrigði besta lausnin? Lukka Pálsdóttir Skoðun
Tröllaskagi heitir skaginn á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Ég var á róli þar í kring þegar það rann upp fyrir mér að þessi tígulegi landshluti hefur fóstrað ótrúlega mörg skáld. Og það engin smáskáld. Í kjölfarið kom mér hug eilítill ferðatúr sem ferðaþjónustumenn norðan heiða gætu komið á laggir: Skáldaskagi-hringferð í ljóðum. Á ensku: The Pen-Insula-A Poetical Journey. Ferðin umhverfis Tröllaskaga er dagsferð og hefst að sjálfsögðu á Hrauni í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar. Hér stíga álfar út úr hólum og fara með frægar línur. Smávinir fagrir, foldarskart... Fífilbrekka, gróin grund... Neðar í dalnum eru Steinsstaðir, hvar Jónas bjó í bernsku. Þar birtist okkur drenghnokki innan úr bæ, klæddur í buxur, vesti, brók og skó. Næst er áð á Bægisá. Tinda fjalla ég sé alla undir snjá, orti Jón á Bægisá til Bjarna Thorarensen, amtmanns á Mörðuvöllum, kvæði sem Jónas orti reyndar upp síðar. Bjarni orti til Jóns: Heill sértu mikli / Milton íslenskra! Jónas orti að Bjarna látnum: Skjótt hefur sól brugðið sumri... Hér er skáldaþing! Við færum okkur niður í Hörgárdal. Á Ásgerðarstöðum (nú í eyði) fæddist árið 1785, Rósa Guðmundsdóttir, Vatnsenda-Rósa, sem orti frægustu hendingar Íslandssögunnar, okkar fegurstu tjáningu á ástarsorg. Þar sem ferðagestir standa á yfirgrónu bæjarhlaði kemur leikari ríðandi í hlutverki elskhugans frá Möðruvöllum og syngur hágrátandi vísurnar sem ortar voru um og til hans: Augun mín og augun þín, / ó þá fögru steina. / Mitt er þitt og þitt er mitt. / Þú veist hvað ég meina. Síðan birtist roskin Rósa undan steini og fer með snilldina sem til varð er þau hittust löngu síðar: Man ég okkar fyrri fund, / forn þó ástin réni. / Nú er eins og hundur hund / hitti á tófugreni. Á Möðruvöllum sat Bjarni sem fyrr er getið. Eldgamla Ísafold, / ástkæra fósturmold, / Fjallkonan fríð! Hér fæddist líka hinn fyrrum heimsfrægi Jón Sveinsson, Nonni. Sem og Hannes nokkur Hafstein, stórskáld og ráðherra; sá maður sem komist hefur næst því að yrkja eins og Jónas: Þar sem háir hólar / hálfan dalinn fylla / lék í ljósi sólar / lærði hörpu að stilla / hann sem kveða kunni / kvæðin ljúfu, þýðu... Fyrstu tvær línurnar eru eftir JH. Leiðin liggur út með Eyjafirði, að Fagraskógi. Hér kom í heiminn frægasta skáld tuttugustu aldar. Davíð Stefánsson sló snemma í gegn en varð jafn snemma hallærislegur talinn og dæmdur úr leik af Reykjavíkurelítunni. Víst er Davíð alltaf ögn sveitó á sinn sér-norðlenska hátt en hann er líka stór í sér og senn verður tímabært að endurreisa þetta skáld sem á margar af okkar liprustu línum. Hér þarf því mikla dagskrá. Tenór stendur úti á tröppum og tekur gestum fagnandi: Þú komst í hlaðið á hvítum hesti. Inni í bæ situr Konan sem kyndir ofninn minn. Í lundinum stendur ljóska: Þinn líkami er fagur / sem laufguð björk / en sálin er ægileg / eyðimörk. Og niðrí fjöru heill karlakór sem kyrjar út fjörðinn: Sjá dagar koma og Brennið þið vitar. Ekkert skáld er meira sungið en Davíð. Og fá skáld eru vinsælli en það sem rekur ættir til Tjarnar í Svarfaðardal. Í hlíðinni ofan við bæinn situr Þórarinn Eldjárn í haglega ortum bústað sínum og mælir af munni fram fyrir rímþyrsta farþega: Skyldi nú ekki vera vit / að vistast hér í bili / við hrossagauksins þýða þyt / og þennan bláa og græna lit / og róa á réttum kili. Þá er haldið í gegnum Dalvík og Ólafsfjarðargöng, um kaupstaðinn og yfir Lágheiði. Lögun hennar veldur því að á korti er hringvegurinn um Tröllaskaga hjartalaga: Þar er plakatið fyrir túrinn komið. (Því verður Lágheiðin áfram farin í þessum ferðum, jafnvel eftir opnun Héðinsfjarðarganga.) Þegar komið er niður í Fljótin er farið hjá eyðibýlinu Lundi sem sagnamaskínan Guðrún er kennd við. Síðan ber fátt við skáldasögu þar til ekið er að bænum Gröf á Höfðaströnd. Úr henni skreið sálmaskáld í heiminn. Upp, upp, mín sál / og allt mitt geð. Það er ögn drungaleg stemning yfir elsta guðshúsi landsins sem hér stendur og kannski við hæfi. Skagfirski tónninn á skáldhörpunni er ögn dimmari en sá eyfirski. Allt eins og blómstrið eina / upp vex á sléttri grund... Hér gefur að líta grund Hallgríms Péturssonar. Nú liggur leiðin aftur inn á þjóðveg eitt. Dagsferðin endar innst í Blönduhlíð, við bæinn Bólu sem Hjálmar er kenndur við, þó fæddur sé annarstaðar. Hann slær botninn í Skáldaskaga: Víða til þess vott ég fann, / þó venjist oftar hinu, / að guð á margan gimstein þann / sem glóir í mannsorpinu. Fáir landshlutar luma á fleiri gimsteinum en The Pen-Insula.
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun