Það er fúlt að missa af Zidanemyndinni hans Sigurjóns Sighvatssonar og hinni umtöluðu United 93 en það er samt alveg kominn tími til að koma sér heim. Sjö dagar í Cannes ætti því ekki að þykja mikið en þeir eru miklu meira
en nóg fyrir sál og líkama. Áreitið, lætin og upplýsingaflæðið er svo
yfirgengilegt að eftir tvo daga hrynur harði diskurinn í hausnum á
manni og maður veit ekki neitt. Reyndir Cannesfarar segja mér þó að
þetta liggi allt einhvers staðar í kollinum og muni koma í ljós eftir
að hausinn hefur verið endurræstur á Íslandi.
Hátíðin sjálf stendur í
12 daga og sömu menn segja mér að það sé fullkomlega óðs manns æði að
ætla að taka þátt frá upphafi til enda. Fólki fer því eðlilega fækkandi
eftir fyrstu vikuna. Kaupendur og seljendur eru snöggir að klára sín
mál og þegar Hollywoodliðið heldur heim sjá blaðamenn ekki jafn ríka
ástæðu til þess að hanga hérna áfram. Það væri samt ekki ónýtt að vera
hérna áfram og nota tímann til að fara í bíó en það fylgir því þrúgandi
tómleikatilfinning að hafa verið í bíóparadís og þurfa samt að missa
nánast af öllu.